Fá að bera sitt DNA saman við DNA læknisins

Foreldrar fagna hér úrskurðinum með dóttur sinni, sem fæddist með …
Foreldrar fagna hér úrskurðinum með dóttur sinni, sem fæddist með gjafasæði frá stofnunni sem Karbaat vann hjá. Karbaat er grunaður um að hafa feðrar tugi og jafnvel hundruð barna. AFP

Dómur er nú loks fallinn í máli frjósemislæknisins Jan Karbaat, sem grunaður er um að hafa notað eigið sæði til að feðra tugi barna í stað þess að nota ann­an sæðis­gjafa sem for­eldr­arn­ir samþykktu. 

Danska ríkisútvarpið DR segir hollenskan dómstól hafa úrskurðað í vikunni að 47 börn, sem getin voru með aðstoð frjósemisstofnunarinnar sem Karbaat starfaði hjá, geti fengið aðgang að DNA upplýsingum hans til að bera saman við sínar eigin.

Karbaat lést í apríl árið 2017 og var þá 89 ára gamall. Skömmu eftir dauða komst hol­lenska heil­brigðisráðuneytið að þeirri niður­stöðu að for­eldr­ar 20 barna og börnin sjálf gætu fengið aðgang að gögnum sínum.

Fjölskylda Karbaats setti sig hins vegar upp á móti því að gögnin yrðu veitt.

CNN sjónvarpsstöðin segir margt benda til sektar Karbaats, m.a. rannsókn á DNA-sýni úr syni hans.

Sæðisgjafar eiga rétt á nafnleynd samkvæmt hollenskum lögum, en í þessum tilfellum var konunum ekki kunnugt um að sæðið sem notað var kæmi úr lækninum sem meðhöndlaði þær.

Í hollenskri heimildamynd um málið hefur því verið slegið fram að Karbaat hefði geta notað sitt eigið sæði til að feðra allt að 200 börn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert