Hvetja fólk til að halda ró sinni

Fjöldi fólks í Nígeríu hefur lýst yfir óánægju með frestun …
Fjöldi fólks í Nígeríu hefur lýst yfir óánægju með frestun kosninga þar í landi. AFP

Forseti Nígeríu og mótframbjóðandi hans í forsetakosningum biðja fólk um að halda ró sinni eftir að greint var frá því í skjóli nætur að kosningunum yrði frestað um viku. Var þeim frestað einungis fimm klukkustundum áður en kjörstaðir áttu að opna.

Muhammadu Buhari, forseti Nígeríu, sagðist vera mjög vonsvikinn en hvatti fólk til að sýna stillingu. Mótframbjóðandi hans og fyrrverandi varaforseti, Atiku Abubakar, sagði fólki að sýna þolinmæði en sakaði stjórnvöld um ólýðæðislega tilburði.

Yfirkjörstjórn landsins kenndi tæknilegum örðugleikum um frestunina. Áætlað er að forsetakosningar fari fram um næstu helgi en þingkosningum, sem einnig áttu að fara fram í dag, hefur verið frestað til 9. mars.

Forsetakosningarnar í Nígeríu fara fram eftir viku.
Forsetakosningarnar í Nígeríu fara fram eftir viku. AFP

Musa Abubakar hafði ferðast 550 kílómetra til að kjósa og sagðist í samtali við BBC ekki trúa því sem væri að eiga sér stað. „Ég er alls ekki ánægður, heldur mjög reiður,“ sagði Yusuf Ibrahim en hann hafði vonast til þess að kjósa í dag.

Forsetakosningar árin 2011 og 2015 fóru einnig fram seinna en áætlað var.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert