Kosningum aflýst í skjóli nætur

Muhammadu Buhari, forseti Nígeríu, sækist eftir endurkjöri. Forsetakosningunum sem áttu …
Muhammadu Buhari, forseti Nígeríu, sækist eftir endurkjöri. Forsetakosningunum sem áttu að fara fram um helgina var frestað um viku. AFP

Kosningum í Nígeríu var frestað um viku í nótt með tilkynningu að næturlagi, aðeins fimm klukkustundum áður en kjörstaðir áttu að opna. Kjósa átti bæði forseta og þingmenn í dag, laugardag.

Það verður ekki gert fyrr en næstu helgi, það er, þá verður kosinn forseti. Þingkosningum er frestað lengur, til 9. mars.

„Að halda kosningarnar eins og áætlað var er ekki lengur ákjósanlegt,“ sagði formaður kosninganefndar þarlendrar, Mahmood Yakubu. Hann talaði um tæknilega örðugleika og sagði þessa erfiðu ákvörðun nauðsynlega til þess að tryggja „frjálsar og réttlátar kosningar.“

Breska ríkisútvarpið fjallar um þessa atburðarás. Viðbrögð við þessari skyndilegu tilkynningu hafa ekki látið á sér standa. Tveir stærstu stjórnmálaflokkarnir segja hvor annan hafa flátt í hyggju og firra sig ábyrgð á þessari ráðstöfun. Og menn fara mikinn á samfélagsmiðlum, þar sem meðal annars má lesa frásagnir af fýluferðum á kjörstað.

Aðdragandi kosninganna í þessu sjöunda stærsta ríki heims hefur verið blóðugur. Í gær var sagt frá tugum líka er fundist hafa í þorpum í norðausturhluta landsins. Hart er deilt um val á forseta: sitjandi forseti Muhammadu Buhari sækist eftir endurkjöri en Atiku Abubakar fyrrverandi varaforseti landsins býður sig fram á móti.





mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert