Teymi Muellers ræddi við Sanders

Sarah Sanders, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, segir teymi Muellers hafa rætt …
Sarah Sanders, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, segir teymi Muellers hafa rætt við sig og að Trump hafi hvatt alla starfsmenn Hvíta hússins til að sýna samstarfsvilja vegna rannsóknarinnar. AFP

Sarah Sanders, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, er í hópi þeirra sem rætt hefur verið við vegna rannsóknar Robert Muellers, sérstaks saksóknara bandarísku alríkislögreglunnar FBI. Sanders staðfesti þetta í samtali við CNN í gær.

„Forsetinn hvatti mig, líkt og alla aðra sem starfa fyrir stjórnina, til að sýna sérstökum saksóknara fullan samstarfsvilja,“ sagði Sanders.

Mueller fer fyrir rannsókn FBI á meintum afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum  2016 og tengslum þeirra við starfsmenn framboðs Donald Trump Bandaríkjaforseta.

CNN segir Sanders vera með þeim síðustu sem vitað sé til að teymi Muellers hafi rætt við í tengslum við rannsókn sína. Talað var við Sanders í lok síðasta árs, á svipuðum tíma og John Kelly, fyrrverandi starfsmannastjóri Hvíta hússins, Sean Spicer, fyrrverandi fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, og fjöldi annarra hátt settra embættismanna voru kallaðir inn til yfirheyrslu.

Að sögn heimildamanna CNN voru ráðamenn í Hvíta húsinu ekki strax tilbúnir að heimila að teymi Muellers ræddi við Sanders. Það sama átti raunar við varðandi Kelly, að því er CNN greindi frá í desember. Hann féllst þó fyrir rest á að svara örfáum og nákvæmlega orðuðum spurningum frá rannsakendum.

CNN segir óljóst hvað rannsakendur hafi viljað ræða við Sanders um, en telur þó líklegt að meðal þess sem hafi vakið áhuga þeirra séu svör hennar er hún varði forsetann fyrir fjölmiðlum vegna fyrirspurna tengdum Rússarannsókninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert