Vilja allt að 24 ára dóm yfir Manafort

Paul Manafort fyrrverandi kosningastjóri Donald Trump.
Paul Manafort fyrrverandi kosningastjóri Donald Trump. AFP

Robert Mueller, sérstakur saksóknari bandarísku alríkislögreglunnar FBI, fer fram á allt að 24 ára fangelsi yfir Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóra Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Krafan er sett fram vegna þess að Manafort braut gegn samningi sínum við Mueller með því að ljúga að saksóknaranum.

Í gær var greint frá því að dómarinn Amy Berman Jackson hefði úrskurðað að Manafort hafi logið að saksóknaranum með því að hafa komið með „fjölda falskra full­yrðinga“ í sam­töl­um sín­um við FBI, starfs­menn Mu­ell­ers og fyr­ir kviðdómi. 

Mu­ell­er fer með rann­sókn FBI á meint­um af­skipt­um Rússa af banda­rísku for­seta­kosn­ing­un­um 2016 og tengsl­um þeirra við fram­boð Trumps.

Mana­fort var sak­felld­ur fyr­ir fjár­mála­svik í ág­úst á síðasta ári í tengsl­um við starf hans sem stjórn­málaráðgjafi í Úkraínu. Í kjöl­farið gerði hann samn­ing við Mu­ell­er um að bera vitni í tengsl­um við Rúss­a­rann­sókn­ina og hljóta fyr­ir vikið væg­ari dóm fyr­ir brot sín.

Í málsgögnum saksóknaraembættisins gegn Manafort má sjá að embættið taki undir með útreikningum dómsmálaráðuneytisins um að Manafort ætti að fá 235-293 mánaða dóm og sekt sem væri á milli 50 þúsund dala og upp í 24,4 milljónir dala. Til viðbótar að gera ætti upptækar 4,4 milljónir á reikningi Manafort.

mbl.is