Flugfélög bregðast við bókunarbrellu

Lufthansa vill koma í veg fyrir að farþegar nýti sér …
Lufthansa vill koma í veg fyrir að farþegar nýti sér leiðina sem gengur undir nafninu „týndar borgir“ til að lækka fargjald sitt. AFP

Þýska flugfélagið Lufthansa hefur kært farþega vegna gloppu sem flugfarþegar hafa notað lengi en hefur undanfarið notið vaxandi vinsælda með neikvæðum áhrifum fyrir flugfélögin. Gengur þessi leið undir nafninu „týndar borgir“ og geta farþegar stundum lækkað ferðakostnað sinn um tugi og jafnvel hundruð þúsunda króna.

Í grunninn gengur þessi leið út á að bóka flug á áfangastað sem nýtur takmarkaðra vinsælda og er þar af leiðandi ódýrari áfangastaður, en millilenda á vinsælum áfangastað og fara ekki um borð í tengiflugið. Geta farþegar almennt komist upp með þetta ef þeir ferðast aðeins með handfarangur.

Áður fyrr var þörf á að þekkja starfsmann ferðaskrifstofu til að finna gloppur sem þessar, en ferðasíður sem leita sjálfkrafa að gloppum í verðlagningu hafa nú sprottið upp, til dæmis Skiplagged. Í umfjöllun Guardian er bent á að farþegi á viðskiptafarrými hafi bókað flug fram og til baka frá Ósló til Seattle í Bandaríkjunum. Var millilent í Frankfurt og á leiðinni til baka sleppti farþeginn því að fara um borð í tengiflugið og tók þess í stað stutt flug til Berlínar á öðrum miða. Með þessu hafi hann sparað sér 2.112 pund, eða sem nemur rúmlega 300 þúsund krónum.

Lufthansa kærði manninn fyrir athæfið og er það nú fyrir dómstólum í Þýskalandi. Deilt er um lögmæti athæfisins og hvort flugfélagið geti farið fram á greiðslu á mismuninum frá farþeganum.

Áður fyrr hafa flugfélög í Bandaríkjunum reynt að ráðast gegn síðum eins og Skiplagged, en án árangurs hingað til. Hins vegar er um að ræða háar upphæðir, í grein þar sem jaðartekjur og -kostnaður skipta öllu máli og því til mikils að vinna fyrir flugfélögin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert