Hvetur til samræðu milli Assad og Kúrda

Sergey Vershinin, aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands, á öryggisráðstefnunni í München.
Sergey Vershinin, aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands, á öryggisráðstefnunni í München. AFP

Varnarsveitir Kúrda í Sýrlandi ættu að hefja samtal við Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, nú þegar Bandaríkin, sem eru hernaðarlegir bandamenn Kúrda, ætla sér að yfirgefa landið. Þetta segir aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands, Sergey Vershinin.

Rússar eru aðalstuðningsmenn stjórnar Assad, en Kúrdar hafa leikið stórt hlutverk í átökunum gegn Ríki íslam, en gert er ráð fyrir að síðasta vígi þeirra falli nú á næstu dögum. Nágrannaþjóðin Tyrkir horfa hins vegar á Kúrda sem hryðjuverkamenn.

Vera bandarískra hermanna í Sýrlandi hefur virkað sem varnarlína gegn mögulegum árásum Tyrklands á varnarsveitir Kúrda, en nú þegar Bandaríkin ætla að draga herafla sinn til baka gæti skapast óvissuástand um stöðu Kúrda.

Vershinin sagði á öryggisráðstefnu, sem nú er haldin í München í Þýskalandi, að ef engir bandarískir hermenn yrðu eftir í norðausturhluta Sýrlands, þar sem Kúrdar hafa farið með yfirráð, væri besta lausnin hefja samtal við stjórnvöld í Damaskus. Sagði hann Kúrda hluta af mannfjölda Sýrlands og þrátt fyrir vandamálin milli Kúrda og stjórnvalda í Damaskus væri samræða þeirra á milli lausnin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert