Lætur af embætti utanríkisráðherra

Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísraels.
Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísraels. AFP

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, greindi frá því í dag að hann ætlaði að stíga til hliðar sem utanríkisráðherra landsins en hann hefur gegnt því embætti undanfarin fjögur ár.

Israel Katz samgönguráðherra tekur tímabundið við sem utanríkisráðherra landsins þangað til þingkosningar fara fram, 9. apríl.

Samkvæmt tilkynningu tekur Katz nýja verkefninu opnum örmum. Hann hlakkar til að halda áfram að leiða Ísrael til frekari afreka, við hlið forsætisráðherrans. Katz er samflokksmaður Netanyahu í Likud-flokknum.

Forsætisráðherrann hefur verið gagnrýndur fyrir að sinna of mörgum ráðherraembættum en auk embættis utanríkisráðherra hefur hann gegnt embætti varnarmálaráðherra og heilbrigðisráðherra.

Netanyahu hefur verið forsætisráðherra í Ísrael í 13 ár en hann hefur undanfarið verið til rannsóknar vegna spillingar. Líklegt þykir að flokkur hans fari áfram með völd að kosningum loknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert