Macron fordæmir gyðingahatur gulvestunga

Gulvestungar mótmæla í París í gær.
Gulvestungar mótmæla í París í gær. AFP

Emmanuel Macron Frakklandsforseti fordæmir hatursorðræðu mótmælenda, svo nefndra gulvestunga, í garð gyðinga.

BBC segir lögreglu hafa gripið inn í til að verja heimspekinginn Alain Finkielkraut þegar mótmælendur veittust að honum í París með móðgunum og háðsglósum um gyðinga. Sagði Macron þetta vera í algjörri andstæðu við það sem gerði Frakkland frábært og yrði ekki liðið.

Tugir þúsunda tóku þátt í mótmælum í fjölda borga Frakklands gegn ríkisstjórninni í gær.

Saksóknarar eru nú með atvikið til rannsóknar og sagði innanríkisráðherra Frakklands í dag að yfirvöld hefðu þegar borið kennsl á mann sem þau telja hafa farið fyrir gerendunum.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti segir hatursorðræðuna ekki líðast.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti segir hatursorðræðuna ekki líðast. AFP

Lögregla notaði táragas til að dreifa hópum mótmælenda nú um helgina er mótmælt var í 14. helgina í röð. Að sögn franskra yfirvalda tóku um 5.000 manns þátt í mótmælunum í París þessa helgina og hafa mótmælendur oft verið fleiri.

BBC segir lögreglumenn í París hafa myndað hlífiskjöld um Finkielkraut eftir að hópur fólks gerði hróp að honum. Sjálfur sagðist hann í samtali við dagblaðið Le Parisien hafa heyrt fólk hrópa „skítugi zíonisti“ og „kastaðu þér út í síkið“. Í samtali við dagblaðið Journal du Dimanche kvaðst hann hafa fundið fyrir „fullkomnu hatri“ í sinn garð og að hann hefði óttast um eigið öryggi, hefði lögreglan ekki verið á staðnum. Hann ítrekaði þó að ekki hefðu allir mótmælendurnir verið árásargjarnir.

Finkielkraut, sem er sonur pólskra innflytjenda, hefur áður látið í ljós samúð með málstað mótmælenda en hann hefur þó einnig gagnrýnt gulvestunga-hreyfinguna.

Sagði hann Macron hafa hringt í sig í gær og boðið fram stuðning sinn.

Ekki er langt síðan Christophe Castaner, innanríkisráðherra Frakklands, varaði við því að gyðingahatur virtist vera að breiðast eins og eitur um landið. Síðustu helgi var greint frá nokkrum atburðum þar sem gyðingahatur kom við sögu og voru hakakrossar m.a. málaðir á póstkassa eftirlifenda helfararinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert