Með forsetann í vasanum

Í smáforritinu er sem dæmi boðið upp á vikuleg krossapróf …
Í smáforritinu er sem dæmi boðið upp á vikuleg krossapróf um forsetann. AFP

Smáforrit á vegum kínversku ríkisstjórnarinnar er orðið það vinsælasta í Kína og tók fram úr WeChat, sem er eins konar kínverskt Facebook, í vikunni. Vinsældir smáforritsins má þó ekki einungis rekja til snilldar þess, heldur hefur Kommúnistaflokkurinn skipað öllum flokksmönnum að nota það.

Í fréttaskýringu vegna málsins á vef breska dagblaðsins Guardian segir að Study (Xi) Strong Country-appið sé alhliða samskiptaforrit þar sem notendur geta fylgst með fréttum, hringt myndsímtöl sín á milli, skipulagt tíma sinn með dagatali og millifært fjármuni með „rauðum umslögum“.

En ekki er einungis um hefðbundið samskiptaforrit að ræða, því þar er einnig hægt að fylgjast með lífi og vangaveltum Xi Jinping forseta, en nafnið á smáforritinu er einmitt eins konar orðaleikur og bendir til þess að þar geti þegnar lært um forseta sinn.

Í smáforritinu er sem dæmi boðið upp á vikuleg krossapróf, þar sem meðal annars er spurt um forsetann, en með prófunum geta notendur unnið sér inn stig og verðlaun. Þá geta notendur horft á sjónvarpsþáttaröð um byltingarkennda sögu Kína og með því að skrá staðsetningu sína geta þeir lesið fréttir um nýlegar heimsóknir forsetans til svæðisins.

Fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa hvatt stuðningsfólk Kommúnistaflokksins til þess að nýta sér smáforritið og yfir standa ráðningar á starfsfólki sem á að sjá um að setja upp efni fyrir appið, en því virðist vera ætlað að tryggja völd forsetans.

Streituvaldandi að halda uppi stigafjölda

Notendur smáforritsins segja það kvíðavaldandi, en sumir atvinnuveitendur krefjast þess að starfsmenn viðhaldi ákveðnum stigafjölda innan forritsins. Aðrir segjast hafa verið neyddir til þess að sækja appið í snjallsíma sína.

Ekki er um að ræða fyrstu tilraun ríkisstjórnarinnar til þess að gera þegna sína háða snjallforriti tengdu forsetanum, en í fyrra setti Kommúnistaflokkurinn á laggirnar app sem nefndist „Learn from Xi“ þar sem hægt var að nálgast fyrstu bók hans og safn yfir tilvitnanir hans og ræður.

Ritskoðun kínverskra yfirvalda á stafrænu efni hefur færst í aukana undanfarna mánuði og hefur ríkisstjórnin meðal annars farið fram á að aðgerðasinnar loki Twitter-aðgöngum sínum og hópum á WeChat er reglulega lokað þrátt fyrir að umfjöllunarefni þeirra sé ópólitískt. Myndböndum af teiknimyndafígúrunum Peppa Pig og Bangsímon hefur einnig verið eytt vegna ógnar við samfélagsstöðugleika.

mbl.is