Ekkert neyðarástand við landamærin

Donald Trump Bandaríkjaforseti flytur ræðu á fundi stuðningsmanna sinna í ...
Donald Trump Bandaríkjaforseti flytur ræðu á fundi stuðningsmanna sinna í El Paso í síðustu viku. AFP

Ekkert neyðarástand ríkir á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna. Þar er vissulega vandamál til staðar en það þarf að leysa með því að taka á rót vandans. Við landamæraeftirlit ætti að beita öðrum aðferðum en vegg í líkingu við Kínamúrinn sem myndi lítið hafa að segja hvað fjölda ólöglegra innflytjenda varðar og vera áhrifalítill í baráttunni gegn innflutningi eiturlyfja sem fara að stærstum hluta og í gríðarlegu magni um hafnir og flugvelli landsins.

Þetta er mat Will Hurds, þingmanns í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Hann er fulltrúi stærsta kjördæmis Texas sem á landamæri að Mexíkó. Hann er ekki eini þingmaðurinn á þessari skoðun en líklega einn af fáum úr röðum repúblikana. Hann var sá eini úr sínum flokki sem greiddi í janúar atkvæði á þingi með opnun alríkisstofnana en þeim var lokað vegna kröfu Donalds Trump forseta um fjármögnun landamæramúrs sem demókratar voru ekki tilbúnir að samþykkja.

Stofnanirnar voru að lokum opnaðar að nýju og Trump samþykkti tillögu demókrata um fjármögnun aukins landamæraeftirlits í síðustu viku en samkvæmt henni fékk hann aðeins brot af þeirri upphæð sem hann hafði upphaflega krafist. Á sama tíma lýsti hann því yfir neyðarástandi í Bandaríkjunum til að freista þess að tryggja peninga til verksins sem hann er m.a. sagður ætla að taka af fjárveitingum hersins. Ljóst þykir að tekist verður á um þá ákvörðun hans fyrir dómstólum og gætu þau málaferli tekið langan tíma.

Trump á fundi með stuðningsmönnum sínum í El Paso í ...
Trump á fundi með stuðningsmönnum sínum í El Paso í síðustu viku. Þar fullyrti hann að landamæraveggur hefði sannað sig í borginni. AFP

Skömmu áður en Trump ákvað að lýsa yfir neyðarástandi var hann á fjölmennum fundi stuðningsmanna sinna í borginni El Paso í Texas sem er skammt frá landamærunum að Mexíkó. Hann talaði um nauðsyn byggingar „stóra“ og „fallega“ veggjarins og fullyrti að það væri vegna farartálma af því tagi sem dregið hefði úr glæpatíðni í El Paso. Trump sagði að El Paso hefði eitt sinn verið ein „hættulegasta borgin“ en væri nú í hópi þeirra öruggustu eftir að landamæramúr var þar reistur.

Rangfærslur í máli Trumps

Þessi fullyrðing á ekki við rök að styðjast og borgarstjóri El Paso, sem er repúblikani, er henni ósammála. El Paso hefur, að því er fram kemur m.a. í grein New York Times, aldrei verið ein af hættulegustu borgum Bandaríkjanna og árið 2008, áður en girðingar voru reistar, var tíðni ofbeldisglæpa þar næstlægst af bandarískum borgum af sömu stærðargráðu samkvæmt opinberum tölum. Og hún hefur haldist svipuð síðan. „Mér er sama hvort borgarstjórinn er repúblikani eða demókrati, þeir eru að bulla þegar þeir segja að landamæratálmar hafi ekki hjálpað til að draga úr glæpum,“ sagði Trump við stuðningsmenn sína. „[Tíðnin] stóð ekki í stað. Hún dróst mjög saman.“

El Paso er innan kjördæmis Hurds. Kjördæmið er stórt og nær meðfram um helmingi landamæranna milli Mexíkó og Bandaríkjanna. Íbúar þess eru að miklum meirihluta ættaðir frá Mið- og Suður-Ameríku eða rúmlega 70% þeirra.

Will Hurd er þingmaður repúblikana í fulltrúadeild Bandaríkjaþings.
Will Hurd er þingmaður repúblikana í fulltrúadeild Bandaríkjaþings.

„Í mínu umdæmi eru svæði þar sem viðskipti yfir landamærin eru mikilvæg og þar sem landamæravarsla er almennt öryggismál,“ sagði Hurd í viðtali í New York Times nýverið. „Og þarna býr fólk sem er með tengsl beggja vegna landamæranna. Þetta er staða sem er erfitt að skilja fyrir þá sem hafa aldrei komið suður að landamærunum.“

Hurd segir að fólk sem búi við landamærin hafi því margt hvert allt aðra sýn á byggingu veggjar en aðrir íbúar Bandaríkjanna. „Það hafa verið notuð mörg orð til að reyna að lýsa þessu máli,“ segir Hurd. „Sumir nota orðið „neyðarástand“. Þegar þú segir orðið „neyðarástand“ þá á það við þegar fólk vill ekki yfirgefa heimili sín, ganga utandyra, en það er ekki staðan í þeim samfélögum sem ég er fulltrúi fyrir. El Paso er oft í hópi öruggustu borga miðað við stærð,“ áréttaði hann.  

Mikill fjöldi en mikil fækkun

Hann bendir á að rétt sé að um 400 þúsund manns hafi komið ólöglega yfir landamærin árið 2018. Hins vegar sé það 80% færra fólk en um árið 2000. Hann segir að vissulega sé þetta enn of há tala en er þetta neyðarástand? „Þetta er vandamál sem hefur verið verkefni margra ríkisstjórna,“ segir hann. „Þetta er vandamál sem við getum leyst og náð stjórn á. Við þurfum að átta okkur á hvert hið raunverulega vandamál er og hver verkfærin eru sem við getum notað til að leysa það. Það á að vera forgangsatriðið.“

Það er ekki hættulaust að fara yfir landamærin. Árlega deyja tugir manna á leiðinni. „Þetta er lífshættuleg för,“ segir Hurd í samtali við New York Times. „Hugsaðu um þetta: Ef þú ert foreldri og þú telur að eina leiðin fyrir barnið þitt til að eiga sér einhverja framtíð sé að fara þessa lífshættulegu leið til Bandaríkjanna, þar sem þú tekur þá áhættu að lenda í því sem er í raun fangelsi. Ímyndaðu þér þessa stöðu. Við tölum ekki nóg um hvernig við tökumst á við rót þess vanda sem veldur því að fólk kemur ólöglega [til Bandaríkjanna]. Rótin er ofbeldi og skortur á tækifærum í El Salvador, Hondúras og Gvatemala. Þetta eru þau svæði sem við eigum að beina sjónum okkar að. Að takast á við rót vandans áður en hann kemur hingað.“

Veggur á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó í bænum El Paso.
Veggur á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó í bænum El Paso. AFP

Aðeins þannig finnist raunverulegar lausnir. „Allir vilja að magn eiturlyfja sem kemur inn í samfélagið okkar minnki.“ Hann bendir á að glæpahringir í Mexíkó hagnist um tugi milljarða dala á eiturlyfjasölu í Bandaríkjunum á hverju ári. „Það er ekki verið að flytja inn það magn af [eiturlyfjum] í nokkrum bakpokum. Það er verið að flytja það inn í stærri einingum.“

Oftast eigi flutningurinn sé stað um hafnir og flugvelli. Strandgæslan sé því mikilvæg í baráttunni gegn innflutningi eiturlyfja. Yfirvöldum afli reglulega upplýsinga um skip á leið með eiturlyf að bandarískum höfnum. Hins vegar hafi strandgæslan aðeins burði til að kanna réttmæti lítils hluta þeirra ábendinga og stöðvar þannig aðeins innflutning brots af eiturlyfjunum. Þessum þætti landamæraeftirlits þyrfti að gefa mun meiri gaum að mati Hurds. „Þegar við ræðum um að tryggja öryggi landamæra okkar þá er þetta mikilvægt púsl.“

Hurd vann lengi fyrir leyniþjónustu Bandaríkjanna, CIA. Það er hans skoðun að í umræðum um eiturlyfjainnflutning sé ekki nógu mikið rætt um flugvelli landsins. Hann segir starfsmenn flugvallanna, sem m.a. sinni landamæraeftirliti, hafa verið setta í ómögulega stöðu þegar alríkisstofnunum var lokað til að knýja á um fjármögnun veggjar Trumps. „Við eigum ekki að nota verkfæri eins og [lokun alríkisstofnana] sem pólitískt vogarafl.“ Þess vegna kaus hann með opnun stofnananna í janúar, ólíkt öðrum repúblikönum í fulltrúadeildinni.

Dýrast og áhrifaminnst

Það er því skoðun Hurds að veggur eftir endilöngum landamærunum að Mexíkó myndi litlu breyta. Landamærin séu löng og viðbragðstími landamæravarða auk þess oft og tíðum mjög langur. „Ef þú ert með viðbragðstíma sem er mældur í klukkutímum og dögum þá er veggur ekki raunverulegur farartálmi. [...] Að byggja vegg hafanna á milli er dýrasta leiðin sem hægt er að fara og sú sem myndi minnstum árangri skila.“

Hann vill fara aðrar leiðir. Samstarf við yfirvöld í Mexíkó er þar á meðal, sagði hann m.a. í samtali við CBS-sjónvarpsstöðina er ákvörðun Trumps var ljós. Þá er tæknin ofarlega á blaði í huga Hurds. Á sumum svæðum sé netsamband t.d. lítið. Yrði ljósleiðari lagður um þessi svæði væri hægt að nýta tæknina í meira mæli við landamæravörslu.

Byggjum vegginn, stóð m.a. á skiltum stuðningsmanna Trump á fundinum ...
Byggjum vegginn, stóð m.a. á skiltum stuðningsmanna Trump á fundinum í El Paso í síðustu viku. AFP

Sumir halda því fram að þegar Trump tali um „vegg“ eigi ekki að taka orð hans bókstaflega, hann eigi við landamæraeftirlit af ýmsum toga; girðingar, veggi og tæknilegar lausnir í bland. En Trump segir ítrekað „veggur“ og að hann eigi að vera „stór“ og „fallegur“. Því eru margir sem taka orð hans bókstaflega og bíða eftir að veggur í líkingu við Kínamúrinn rísi á landamærunum í suðri.

„Hvað er átt við með veggur? Það er það sem þarf að skilgreina,“ segir Hurd.

Það mun nú væntanlega koma í hlut dómstóla að svara því hvort að raunverulegt „neyðarástand“ ríki á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó sem réttlæti gjörðir Trumps til að afla fjár til byggingar veggjarins sem hann hefur svo oft og mörgum sinnum lofað kjósendum sínum. Með yfirlýsingu sinni virkjar hann heimild í lögum frá árinu 1976. Neyðarástandi hefur áður verið lýst yfir í Bandaríkjunum, m.a. í kjölfar hryðjuverkanna 11. september 2011 og árið 2009 er svínaflensan breiddist út.

Trump hefur reynt að tryggja fjármagn til byggingar veggjarins í tvö ár. Hann var í þann mund að tapa þeirri orrustu er hann ákvað að lýsa yfir neyðarástandi vegna flæðis eiturlyfja og „ofbeldisfullra glæpamanna“ yfir landamærin. Í fréttaskýringu AFP-fréttastofunnar er bent á að sjálfur hafi hann grafið undan rökum fyrir ákvörðun sinni er hann sagði: „Ég þurfti ekki að gera þetta en ég vildi gera þetta mun hraðar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina