Létust í þyrluslysi í Noregi

Frá vettvangi í gærkvöldi. Tugir björgunarsveitarmanna, leitarhundar og tvær þyrlur …
Frá vettvangi í gærkvöldi. Tugir björgunarsveitarmanna, leitarhundar og tvær þyrlur komu að leitinni að horfnu þyrlunni. Ljósmynd/Rauði krossinn

Maður og kona, sem flugu þyrlu af gerðinni Robinson 44 og fóru í loftið frá Røldal í Hordaland-fylki í Vestur-Noregi klukkan 14:30 í gær með stefnu á Karmøy úti fyrir strönd Rogaland, létust bæði er þyrlan hrapaði í Røldalsfjellet einhvern tímann á ferðalaginu en leit var hafin er hún skilaði sér ekki á áfangastað á tilskildum tíma.

Fóru tugir leitarmanna frá Rauða krossinum og Norskum björgunarhundum þegar af stað auk þess sem áhöfn Sea King-björgunarþyrlu frá Sola-flugvelli við Stavanger leitaði úr lofti. Um klukkan fjögur síðdegis í gær tókst að staðsetja fjarskiptamastur sem síðast hafði tekið við boðum frá símum þeirra sem í þyrlunni voru.

Ljósmynd/Norske redningshunder

Á þriðja tímanum í nótt kom þyrluáhöfnin auga á flak Robinson-þyrlunnar í fjallshlíð og tók að sögn Johan Mannsåker, vaktstjóra hjá Björgunarmiðstöð Suður-Noregs, töluverðan tíma að komast þangað sem flakið lá þar sem um brattar hlíðar var að fara og aðkoma björgunarþyrlunnar verulega torsótt auk þess sem snjókoma var á vettvangi.

Maðurinn og konan voru úrskurðuð látin á vettvangi og það var ekki fyrr en á sjöunda tímanum í morgun sem lokið var við að koma líkum þeirra niður af fjallinu, að sögn Per Algrøy hjá vesturumdæmi lögreglunnar.

Lögregla og rannsóknarnefnd samgönguslysa hefja nú í morgunsárið rannsókn á tildrögum slyssins en TV2 greinir frá því að tólf slysatilfelli, þar sem þessi þyrlutegund á í hlut, hafi verið skráð árabilið 1997 til 2012.

VG

NRK

Bergens Tidende

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert