Vill fá sannleikann fram

Andrew McCabe.
Andrew McCabe. AFP

Formaður dómsmálanefndar Bandaríkjaþings, Lindsey Graham, telur rétt að komast til botns í ásökunum um að rætt hafi verið um að koma Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, frá völdum árið 2017.

Graham útilokar ekki að fólki verði stefnt fyrir dóm til þess að fá úr þessu skorið. Fyrrverandi forstjóri bandarísku alríkislögreglunnar (FBI), Andrew McCabe, greindi nýverið frá því að Rod Rosenstein aðstoðardómsmálaráðherra  hafi rætt um möguleikann á því að virkja 25. grein stjórnarskrárinnar. Rosenstein hefur hingað til neitað því að hafa rætt þennan möguleika. Greinin felur í sér að hægt sé að steypa forseta af stóli sé hann ófær um að gegna starfinu.

Þetta kom fram í máli McCabe í sjónvarpsþættinum 60 Minutes á CBS í gær en greint var frá þessu í síðustu viku í kynningu á þættinum. 

McCabe sagði jafnframt að FBI haft ástæðu til þess að rannsaka tengsl forsetans við Rússa. Rosenstein hafi verið full alvara þegar hann ræddi möguleikann á að vera með hlerunarbúnað til þess að taka Trump upp. Að Trump hafi sagt að forseti Rússlands, Vladimír Pútín, hafi tjáð honum að Norður-Kórea hefði ekki bolmagn til þess að senda eldflaugar á bandaríska jörð og þegar leyniþjónustumenn drógu þetta í efa hafi Trump svarað því til að honum stæði á sama því hann tryði Pútín.

Embætti forseta Bandaríkjanna segir að McCabe væri ótrúverðugur en hann var rekinn úr starfi í fyrra sakaður um að hafa logið að rannsóknarnefnd á vegum stjórnvalda.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert