Banna mismunun á grundvelli hárgreiðslu

Dreddar eins tónlistarmaðurinn Lenny Kravitz er meðal þeirra hárgreiðslna sem …
Dreddar eins tónlistarmaðurinn Lenny Kravitz er meðal þeirra hárgreiðslna sem sum fyrirtæki hafa bannað starfsfólki að bera. AFP

Mannréttindanefnd New York-borgar hefur gefið út leiðbeiningar um að bannað sé að mismuna fólki á grundvelli hárgreiðslu þar sem slíkt flokkist undir mismunun á grundvelli kynþáttar.

BBC segir leiðbeiningarnar eiga að vernda réttindi New York-búa hvort sem er í skóla, vinnu eða á almannafæri. Staðan sé nefnilega sú að reglur um hárgreiðslur hafi frekar áhrif á svarta en hvíta, þar sem afró-greiðsla og ýmsar gerðir af fléttum séu meðal þeirra greiðslna sem helst séu bannaðar.

Í skýrslu nefndarinnar segir að hárgreiðslur svartra séu oft taldar henta illa fyrir atvinnulífið og að með því að takmarka hvernig starfsfólk eða nemendur greiða hár sitt séu fyrirtæki og stofnanir að viðhalda ímynd byggðri á kynþáttafordómum.

Carmelyn P Malalis, formaður nefndarinnar, sagði reglur um hárgreiðslu ekki snúast um fagmennsku, heldur séu þær aðferð til að „takmarka hvernig svartir komi fyrir á vinnustað“ og annars staðar.

Leiðbeiningunum sé ætlað að koma stofnunum í „skilning um að svartir New York-búar hafi fullan rétt á að greiða hár sitt eins og þeir sjálfir kjósi án þess að þurfa að óttast að vera smánaðir eða sæta refsingu.“

Þau fyrirtæki sem ekki virða þetta geta átt yfir höfði sér allt að 250.000 dollara sekt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert