Trump: „Eigið á hættu að tapa öllu“

Donald Trump Bandaríkjaforseti á fundi með stuðningsmönnum sínum í Flórída …
Donald Trump Bandaríkjaforseti á fundi með stuðningsmönnum sínum í Flórída í kvöld. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hvatti í dag hermenn í herliði Venesúela til að þiggja boð Juan Guaidós, þingforseta Venesúela, um friðhelgi láti þeir af stuðningi sínum við Nicolas Maduro, forseta landsins.

Fjöldi ríkja, m.a. Ísland, hefur lýst yfir stuðningi við Guaidó sem forseta landsins til bráðabirgða. Sagði Trump hermennina eiga á hættu að tapa öllu yfirgæfu þeir ekki Maduro.

„Í dag hef ég skilaboð fyrir sérhvern embættismann sem hjálpar til við að halda Nicolas Maduro á forsetastóli. Augu heimsins eru á ykkur í dag, dag hvern og alla daga framtíðar,“ sagði Trump á fundi með stuðningsmönnum sínum í Miami.

„Þið getið ekki falið ykkur fyrir valinu sem þið standið nú frammi fyrir. Þið getið valið að fallast á göfuglynt boð Guaidós forseta um friðhelgi, þannig að þið getið lifað í friði með fjölskyldum ykkar og öðrum landsmönnum.“

Hinn valkosturinn væri að halda áfram stuðningi við Maduro. „Veljið þið þessa leið þá mun enginn griðastaður bíða ykkar. Það er engin auðveld útleið frá því. Þið munuð tapa öllu,“ sagði Trump.

Kvaðst Trump þá vilja sjá friðsamleg valdaskipti eiga sér stað í Venesúela, en að allt væri enn opið í þeim efnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert