Trump vill veita Sádum kjarnorkutæknina

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Salman bin Abdulaziz Sádakonungur.
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Salman bin Abdulaziz Sádakonungur. AFP

Bandarísk stjórnvöld vinna nú að því með hraði að flytja tækni til kjarnorkuvinnslu til Sádi-Arabíu, samkvæmt nýrri skýrslu bandaríska þingsins um málið. BBC segir eina af nefndum fulltrúadeildar þingsins, sem demókratar fara nú með meirihluta í, hafa hafið rannsókn á málinu eftir að áhyggjur vöknuðu um að bandarísk stjórnvöld hefðu hug á að reisa kjarnorkuver víðs vegar í Sádi-Arabíu.

Sagði uppljóstrari á fundi með þingnefndinni að þetta gæti aukið á óstöðugleika í Mið-Austurlöndum og hvatt til kjarnorkuvígbúnaðarkapphlaups.

Fyrirtæki tengd Donald Trump Bandaríkjaforseta eru sögð hafa þrýst á um málið. Í skýrslu yfirlitsnefndar fulltrúadeildarinnar er vakin athygli á því að málið sé „sérstaklega tvísýnt vegna núverandi tilrauna stjórnar til að flytja kjarnorkutækni, sem leynd hefur ríkt yfir“.

BBC segir Trump hafa átt fund í Hvíta húsinu 12. febrúar með framkvæmdaaðilum um þessa ráðagerð. Þá muni Jared Kushner, ráðgjafi og tengdasonur forsetans, fara til Mið-Austurlanda síðar í þessum mánuði til að ræða efnahagshluta friðaráætlunar stjórnar Trumps.

Neituðu að fallast á öryggisráðstafanir

Ráðamenn í Sádi-Arabíu hafa sagst vilja verða kjarnorkuveldi til þess að geta mætt vaxandi orkuþörf ríkisins með nýjum hætti. Áhyggjur af að Íranar séu að þróa kjarnorkutækni eru þó einnig sagðar eiga hlut að máli samkvæmt bandarískum fjölmiðlum.

Fyrri viðræður Bandaríkjanna og Sádi-Arabíu um kjarnorku fyrir þá síðarnefndu runnu út í sandinn þegar Sádar neituðu að fallast á öryggisráðstafanir, sem hindra áttu að tæknin væri notuð til vopnagerðar. Stjórnmálafréttavefurinn ProPublica segir stjórn Trumps hins vegar mögulega ekki telja slíkar öryggisráðstafanir nauðsynlegar.

Gagnrýnendur segja það hins vegar jafngilda því að hefja hættulegt nýtt vopnakapphlaup á þegar eldfimu svæði veiti Bandaríkin Sádi-Arabíu aðgang að kjarnorkutækninni.

Skýrsla fulltrúadeildarinnar byggir á frásögnum uppljóstrara og skjöl sem henni fylgja eru sögð sýna fram samskipti stjórnar Trumps við  forsvarsmenn bandarískra kjarnorkuvera.

Í skýrslunni er fullyrt að einkafyrirtæki þrýsti á um flutning kjarnorkutækninnar til Sádi-Arabíu, þar sem þau telji sig geta hagnast um milljarða dollara á samningum tengdum uppbyggingu og starfsemi kjarnavera þar í landi.

Hvíta húsið hefur ekki tjáð sig um skýrsluna, en þar er fullyrt að Trump taki beinan þátt í þessari vinnu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert