Tugþúsundir mótmæla gyðingahatri

Parísarbúar mótmæla hér gyðingahatri á Republique-torginu í París.
Parísarbúar mótmæla hér gyðingahatri á Republique-torginu í París. AFP

Tugir þúsunda Frakka hafa þyrpst út á götur borga í kvöld til að mótmæla aukningu í hatursorðræðu í garð gyðinga. Skemmd­ar­verk voru unn­in á um 80 gra­freit­um í kirkju­g­arði gyðinga í Alsace í aust­ur­hluta Frakk­lands aðfaranótt þriðju­dags og höfðu hakakrossar og ýmis ókvæðisorð verið krotuð á leg­stein­ana. 

Guardian segir talið að Édouard Philippe, forsætisráðherra Frakklands, taki þátt í mótmælunum í París ásamt ráðherrum og þingmönnum. Frakklandsforseti, Emmanuel Macron, boðaði hins vegar til minningarstundar við helfararminnismerki borgarinnar. Fyrr um daginn heimsótti Macron kirkjugarðinn í Alsace og fundaði í kjölfarið með leiðtogum gyðingasamfélagsins á staðnum. „Það er mikilvægt fyrir mig að vera hér með ykkur í dag,“ sagði Macron.

Tugþúsundir tóku þátt í mótmælunum í kvöld.
Tugþúsundir tóku þátt í mótmælunum í kvöld. AFP

Ekki er langt síðan Christophe Castaner, inn­an­rík­is­ráðherra Frakk­lands, varaði við því að gyðinga­hat­ur virt­ist vera að breiðast eins og eit­ur um landið. Macron gagnrýndi svo hat­ursorðræðu mót­mæl­enda, gulvestunganna svo nefndu, um helgina eft­ir að lög­regl­an hafði gripið inn í til að verja heim­spek­ing­inn Alain Finkiel­kraut er mót­mæl­end­ur veitt­ust að hon­um í Par­ís með móðgun­um og háðsglós­um um gyðinga.

Tveir unglingspiltar voru þá handteknir á föstudag eftir að þeir höfðu skotið með loftriffli á bænahús gyðinga.

François Hollande, fyrrverandi Frakklandsforseti, var meðal þeirra sem tóku til …
François Hollande, fyrrverandi Frakklandsforseti, var meðal þeirra sem tóku til máls á mótmælafundinum. AFP


„Þetta verður að hætta“

Í mótmælunum í París í kvöld báru sumir skilti með skilaboðum á borð við „Bræðralag“, „Nú er nóg komið“ og „Út með hatrið“. „Ég er hér til að sýna stuðning, franskir gyðingar eiga ekki að þurfa að bera gyðingahatrið einir,“ sagði Pauline Mandroux, einn mótmælendanna og kvaðst vera í áfalli yfir því að gyðingahatur færist í aukana. „Í fyrstu hélt ég að þetta væru einangruð tilvik, en nú sé ég að það er djúpt á þessum vanda og að umburðarleysi er að aukast,“ sagði hún og bætti við: „Þetta verður að hætta.“

Emmanuel Macron Frakklandsforseti er hér með leiðtogum gyðinga við minnismerkið …
Emmanuel Macron Frakklandsforseti er hér með leiðtogum gyðinga við minnismerkið um helförina. AFP

Chantal Pardo, ritari á eftirlaunum, sagði nýlegar árásir skelfa sig. „Við verðum að finna lausn á þessu. Það þurfa allir að rísa upp, sama hvaðan þeir koma,“ sagði hún.

Fræðimenn sem hafa stúderað gulvestungahreyfinguna segja mótmælin í sjálfu sér ekki einkennast af gyðingahatri, en þar sem engin stjórn sé yfir hreyfingunni hafi hægri öfgaöfl slæðst í hópinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert