Áttundi þingmaðurinn úr Verkamannaflokknum

AFP

Breski þingmaðurinn Joan Ryan hefur yfirgefið Verkamannaflokkinn og gengið til liðs við sjö aðra fyrrverandi þingmenn flokksins sem sögðu skilið við hann fyrr í vikunni.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að Ryan hafi af því tilefni sakað Jeremy Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins, um að leyfa gyðingaandúð að grassera innan flokksins. Undir hans forystu hefði Verkamannaflokkurinn orðið að flokki þar sem kynþáttahyggja fengi að blómstra og hatur í garð Ísraels.

Ryan sagðist telja það skyldu sína að yfirgefa Verkamannaflokkinn og ganga til liðs við nýjan flokk sem þingmennirnir sjö sem áður yfirgáfu flokkinn eru að setja á laggirnar. Sagði hún Corbyn ala á gyðingaandúð og að hann væri hættulegur.

Þingmaðurinn sagði að ákvörðunin væri sársaukafull. Hún hefði ekki verið kosin á þing til þess að horfa upp á þessa þróun innan Verkamannaflokksins. Hún hefði engan annan kost en að hafna henni. Fyrir henni væri um siðferðislegt mál að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert