Dómarar og lögmenn í haldi

Frá Vilníus, höfuðborg Litháens.
Frá Vilníus, höfuðborg Litháens. Ljósmynd/Wikipedia/Marcin Białek

Nokkrir dómarar og lögmenn eru í haldi lögreglu að beiðni ríkissaksóknara í Litháen. Fólkið, alls 26 manns, er grunað um að hafa þegið mútur en málið er afar umfangsmikið. Á annað hundrað lögreglumenn tóku þátt í húsleitum á tugum staða í morgun.

Ríkissaksóknari Litháen, Evaldas Pasilis, segir að af þeim séu átta dómarar og fimm vel þekktir lögmenn. Þar á meðal er einn hæstaréttardómari. Fólkið er grunað um að hafa þegið misháar fjárhæðir í mútur, allt frá þúsund upp í 100 þúsund evrur (13,6 milljónir króna). 

„Ríkið ber mikinn skaða af,“ segir Pasilis. Það er ekki fjárhæðin sem skiptir mestu máli heldur traustið á dómskerfið, bætir hann við.

Zydrunas Bartkus, yfirmaður efnahagsbrotadeildar lögreglunnar (STT), segir að leitað hafi verið á yfir 100 stöðum í morgun og um sé að ræða stærstu aðgerð í sögu deildarinnar. Meðal annars þáði fólkið mútur fyrir að láta grunaða glæpamenn lausa sem og niðurstöður í spillingarmálum. 

Dómararnir eru allir gamalreyndir í starfi, með tveggja til þriggja áratuga reynslu. Þeir störfuðu sem dómarar í höfuðborginni, Vilnius, sem og í næststærstu borg landsins, Kaunas.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert