Fluttir frá síðasta svæði Ríkis íslams

Hermenn SDF í Sýrlandi eru hér í nágrenni þorpsins Baghuz …
Hermenn SDF í Sýrlandi eru hér í nágrenni þorpsins Baghuz sem þeir hafa haft umkringt undanfarna daga. AFP

Almennir borgarar hafa nú verið fluttir á brott frá síðasta þorpinu í Sýrlandi sem enn var á valdi vígasamtakanna Ríkis íslams. BBC segir 15 flutningabíla með karla, konur og börn hafa yfirgefið Baghuz, sem er í nágrenni landamæra Sýrlands og Íraks, en talið var að um 200 fjölskyldur væru innlyksa í þorpinu.

Hermenn frá sýrlensku lýðræðisöflunum SDF, með stuðningi Bandaríkjahers, höfðu verið með svæðið umkringt undanfarið. Forsvarsmenn SDF segja enn ekki vitað hvort einhverjir vígamenn leynist meðal farþeganna, en frásagnir um ástandið þar hafa ekki verið samhljóðandi.

Þannig hefur BBC eftir talsmanni mannréttindasamtakanna Syrian Observatory for Human Rights að talið sé að hvorki almennir borgarar né vígamenn séu eftir í Baghuz. Samkvæmt heimildamönnum samtakanna voru þeir vígamenn sem þar voru búnir að fallist á að gefast upp eftir ítarlegar samningaviðræður við SDF.

Bandamenn, undir stjórn Bandaríkjahers í baráttunni gegn Ríki íslams, segjast hins vegar ekki geta staðfest fréttir af uppgjöf vígamanna. Segja þeir „hörðustu“ vígamennina enn vera eftir í Baghuz.

Um 20.000 almennir borgarar sem hafa flúði frá Baghuz undanfarnar vikur hafa verið fluttir í al-Hol-flóttamannabúðirnar í Hassakeh-héraðinu. Meðal þeirra eru konur og börn vígamanna og fjöldi erlendra ríkisborgara, til að mynda hin breska Shamima Begum, sem var 15 ára er hún flúði að heiman til að ganga til liðs við Ríki íslams.

Begum eignaðist son í flóttamannabúðunum fyrr í þessari viku og í gær var greint frá því að breska innanríkisráðuneytið ætlaði að svipta hana ríkisborgararétti. Hefur Begum, sem lýst hafði yfir vilja að snúa heim, sagt ákvörðunina „óréttláta“.

Fyrir fimm árum náði yfirráðasvæði Ríkis íslams yfir um 88.000 km2, svæði sem náði frá vesturhluta Sýrlands til austurhluta Íraks. Í dag er talið að um 300 vígamenn hafist þar við á um hálfum ferkílómetra lands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert