Alec Baldwin óttast um líf sitt

Hjónin Hilaria Baldwin og Alec Baldwin.
Hjónin Hilaria Baldwin og Alec Baldwin. AFP

Bandaríski leikarinn Alec Baldwin óttast um líf sitt og fjölskyldu sinnar eftir hótanir forseta Bandaríkjanna, Donald Trump. 

Baldwin óttast að Trump sé að kynda undir hatri í hans garð meðal stuðningsmanna sinna vegna framgöngu leikarans í þáttunum Saturday Night Live. Þar leikur Baldwin Trump og dregur hann sundur og saman í háði. 

Í frétt Guardian kemur fram að Trump sé að ýta undir reiði og biturð ýmissa sem geti endað illa.

Baldwin svarar einnig Donald Trump junior en sonur forsetans skrifar á Twitter að ótti Baldwins sé bull og kjaftæði. Segir Baldwin að sonur forsetans muni hafa nægan tíma í fangelsinu til að horfa á Saturday Night Live. 

Baldwin endurgerði blaðamannafund Trumps í síðustu viku en á fundinum tilkynnti Trump um neyðarástand í landinu vegna byggingar múrsins við landamæri Mexíkó.

Forsetinn var mjög ósáttur við grínið og svaraði að bragði á Twitter að það væri bara ekkert fyndið við Saturday Night Live eða lygafréttir NBC. Spurði forsetinn hvernig sjónvarpsstöðin kæmist upp með þetta án þess að hljóta fyrir það makleg málagjöld. Það væri mjög ósanngjarnt og mætti alveg breyta.






mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert