Geti ekki yfirgefið Begum

Fjölskyldan segist hafna þeim ummælum sem Begum hefur látið falla …
Fjölskyldan segist hafna þeim ummælum sem Begum hefur látið falla í fjölmiðlum að undanförnu. AFP

Fjölskylda Shamima Begum, sem gekk til liðs við víga­sam­tök­in Ríki íslams í Sýr­landi þegar hún var 15 ára göm­ul, hefur skrifað innanríkisráðherra Bretlands bréf þar sem þess er krafist að ákvörðun um sviptingu ríkisborgararéttar hennar verði endurskoðuð.

Fréttastofa BBC hefur bréfið til Sajid Javid undir höndum, en þar segir fjölskyldan að ekki sé tækt að yfirgefa Begum og að mál hennar eigi heima fyrir breskum dómstólum.

Fjölskyldan segist hafna þeim ummælum sem Begum hefur látið falla í fjölmiðlum að undanförnu, segir þau viðbjóðsleg og endurspegli ekki gildi bresku þjóðarinnar.

Í bréfinu er þess einnig óskað að stjórnvöld aðstoði fjölskylduna við að koma nýfæddum syni Begum til Bretlands.

Innanríkisráðuneytið hefur haldið því fram að mögulegt sé að svipta Begum ríkisborgararétti sínum þar sem hún eigi möguleika á ríkisborgararétti annars staðar. Talið var að Begum hefði ríkisborgararétt í Bangladess í gegnum móður sína, en utanríkisráðuneyti Bangladess hefur hafnað því og segir Begum aldrei hafa sótt um tvöfaldan ríkisborgararétt né heimsótt landið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert