Guaido ætlar að landamærunum

Juan Guaido, þingforseti Venesúela og leiðtogi stjórnarandstöðunnar í landinu.
Juan Guaido, þingforseti Venesúela og leiðtogi stjórnarandstöðunnar í landinu. AFP

Juan Guaido, forseti þings Venesúela sem lýst hefur sjálfan sig starfandi forseta landsins, hyggst fara að landamærunum að Kólumbíu til þess að reyna að tryggja að hjálpargögnum, sem Bandaríkjamenn hafa sent til landsins og safnað hefur verið saman í landamærabænum Cucuta, verði komið til þeirra sem þurfa á því að halda.

Herinn í Venesúela hefur komið í veg fyrir að hægt hefur verið að flytja hjálpargögnin yfir landamærin samkvæmt skipun Nicolas Maduro, forseta landsins. Maduro segir að hjálpargögnin feli í sér afskipti af innanlandsmálum Venesúela. Guaido hefur sagt að hjálpargögnin þurfi að skila sér í síðasta lagi á laugardaginn.

Þingforsetinn hyggst halda að landamærunum í bílalest með fleiri þingmönnum. Fram kemur í frétt AFP að ekki hafi komið fram nákvæmlega hvað Guaido ætli að gera við landamærin þegar þangað komi. Hann hafi hins vegar fengið þúsundir sjálfboðaliða á undanförnum dögum til þess að aðstoða við að dreifa hjálpargögnunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert