Þrjú morð í Svíþjóð í nótt

AFP

Þrjú morð eru til rannsóknar hjá sænsku lögreglunni eftir nóttina. Tveir voru skotnir til bana skammt frá skóla í Upplands-Bro, úthverfi Stokkhólms, og einn fannst látinn í smábænum Forsby í Gävle.

Lögreglan greindi frá því í morgun að hafin væri rannsókn á mannsláti í Forsby en þar fannst maður látinn utandyra í morgun. Málið er rannsakað sem manndráp. Ekki eru veittar frekari upplýsingar um málið að svo stöddu, segir í frétt Aftonbladet.

Tilkynnt var um skothvelli í Upplands-Bro, norðvestur af Stokkhólmi, skömmu eftir miðnætti og þegar lögregla kom á vettvang fannst alvarlega særður maður skammt frá skóla. Hann lést á sjúkrahúsi í nótt. Annar maður fannst síðan látinn í nokkur hundruð metra fjarlægð en það voru leitarhundar lögreglu sem fundu þann síðari. 

Einn er í haldi lögreglu í tengslum við málið en að sögn lögreglu talið að morðin tengist skotárás í sama hverfi 11. febrúar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert