Einn þingmaður enn úr Verkamannaflokknum

Breski þingmaðurinn Ian Austin.
Breski þingmaðurinn Ian Austin. AFP

Breski þingmaðurinn Ian Austin hefur sagt skilið við Verkamannaflokkinn. Austin segist þó engin áform hafa um að ganga til liðs við átta aðra þingmenn sem yfirgáfu flokkinn fyrr í vikunni og stofnuðu nýja stjórnmálahreyfingu sem þeir kalla Sjálfstæða hópinn.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að Austin hafi lengi gagnrýnt leiðtoga Verkamannaflokksins, Jeremy Corbyn, harðlega. Haft er eftir þingmanninum að hann hafi skammast sín fyrir flokkinn undir forystu Corbyns.

„Ég segi þeim [kjósendum Austins] alltaf sannleikann og ég gæti ekki beðið fólk í kjördæminu um að gera Jeremy Corbyn að forsætisráðherra,“ segir Austin. Gagnrýnir hann harðlega grasserandi gyðingaandúð innan Verkamannaflokksins.

Sannleikurinn væri sá að Verkamannaflokkurinn tæki harðar á fólki sem kvartaði undan gyðingaandúð en þeim sem stæðu fyrir henni, segir hann enn fremur. Róttækir vinstrimenn væru við völd í flokknum og væru að hrekja marga hófsama úr honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert