Íhuga að drepa fíla á ný

Bannað hefur verið samkvæmt lögum að drepa fíla í Botsvana ...
Bannað hefur verið samkvæmt lögum að drepa fíla í Botsvana í um fjögur ár. AFP

Stjórnvöld í Botsvana íhuga að heimila dráp á fílum á ný. Í nýrri skýrslu sem unnin var að beiðni stjórnvalda er lagt til að fílar verði drepnir og hræ þeirra meðal annars nýtt í dýrafóður. Dráp á þessum villtu dýrum hefur verið bannað samkvæmt lögum í landinu í fjögur ár. BBC greinir frá.

Talið er að um 130 þúsund fílar séu í landinu og þeim hafi fjölgað of mikið eftir að bannið tók gildi og að þau séu allt of mörg miðað við landsvæðið. Bændur benda á að fílar eyðileggi uppskeru þeirra, traðki niður allt sem fyrir þeim verður og dæmi eru um að fílar hafi drepið fólk.

Aðrir telja dýrin færri en opinberar tölur gefa til kynna og ef heimilað verði að drepa fíla á ný mun það hafa neikvæð áhrif á ferðamannstraum til landsins sem hefur aukist jafnt og þétt á síðustu árum. Þeir benda jafnframt á að skaðinn verði óafturkræfur einkum fyrir orðspor landsins ef þessi stóru dýr verða felld.

Frá því að nýr forseti, Mokgweetsi Masisi, tók við stjórntaumum í landinu hefur hann endurskoðað bannið sem forveri hans setti. Fjölmargir fundir hafa verið haldnir til að ræða kosti og galla bannsins og margir verið kallaðir að borðinu til að koma skoðunum sínum á framfæri meðal annars samtök dýraverndunarsinna, fulltrúar bænda og fleiri.

Masisi fullyrðir að breytingarnar verði ekki innleiddar strax heldur verði málið rætt enn frekar. 

Bændur eru ekki sáttir við fílana sem eyðileggja uppskeru þeirra.
Bændur eru ekki sáttir við fílana sem eyðileggja uppskeru þeirra. AFP
mbl.is