Lýsir yfir neyðarástandi í Súdan

Omar al-Bashir lýsti yfir neyðarástandinu í beinni sjónvarpsútsendingu.
Omar al-Bashir lýsti yfir neyðarástandinu í beinni sjónvarpsútsendingu. AFP

Forseti Súdan hefur lýst yfir neyðarástandi í landinu, leyst ríkisstjórnina frá störfum og rekið alla ríkisstjóra landsins. Omar al-Bashir tilkynnti um neyðarástand til eins árs í beinni sjónvarpsútsendingu í dag, að því er segir í frétt BBC af málinu.

Þjóðaröryggisstofnun og leyniþjónusta Súdan höfðu fyrr í dag tilkynnt um að forsetinn ætlaði að láta af störfum, en ofbeldisfull mótmæli hafa staðið yfir í landinu síðan í desember.

Almenningur í Súdan hóf mótmælin vegna hækkandi verðs á brauði og eldsneyti og hefur krafist afsagnar forsetans, sem hefur setið á valdastól í 30 ár. Yfir þúsund hafa verið handtekin vegna mótmælanna og hið minnsta 40 hafa látist í átökum við öryggissveitir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert