Níð fyrir náð drottins?

Franskur dómstóll hefur heimilað sýningar á nýrri kvikmynd leikstjórans François Ozon en í myndinni er sögð saga sem byggir á sannsögulegum heimildum um prest sem er sakaður um að hafa beitt ungan skátadreng kynferðisofbeldi. Málið hefur aldrei komið til kasta dómstóla.

Myndin, Grâce à Dieu, hlaut Silfurbjörninn á kvikmyndahátíðinni í Berlín nýverið. Presturinn sem fjallað er um í myndinni, Bernard Preynat, reyndi að stöðva sýningar á myndinni í Frakklandi þar sem hann taldi að hún gæti skaðað málstað hans. 

Franski leikstjórinn François Ozon á blaðamannafundi eftir að mynd hans …
Franski leikstjórinn François Ozon á blaðamannafundi eftir að mynd hans Grâce à Dieu fékk Silfurbjörninn í Berlín. AFP

Myndin var frumsýnd í Frakklandi á miðvikudag, daginn áður en Frans páfi setti ráðstefnu Páfagarðs þar sem umfjöllunarefnið er kynferðislegt ofbeldi innan kaþólsku kirkjunnar. 

Ozon hefur unnið að Grâce à Dieu, sem hægt er að þýða sem Fyrir náð drottning, í mörg ár og hefur leynd hvílt yfir verkefninu. Þar er sögð saga sem kom upp á yfirborðið árið 2015 þegar François Devaux greindi opinberlega frá því að Preynat hafi beitt hann kynferðislegu ofbeldi 25 árum áður en þá var Devaux í skátunum. 

Preynat var vísað úr starfi af hálfu kaþólsku kirkjunnar það sama ár og í ljós kom að kardínáli hans, Philippe Barbarin, hafði borið á hann sakir um barnaníð árið 2010 vegna orðróms sem var uppi en presturinn hélt því fram að hann væri breyttur maður.

Fjórum árum síðar greindi Barbarin, sem er nú erkibiskup í Lyon, frá málinu í Páfagarði en lét hjá líða að tilkynna það til lögreglu.

Réttarhöldum yfir kardínálanum og fimm öðrum er nýlokið vegna þeirra hlutar í málinu og verður dómur kveðinn upp 7. mars. Ekki hefur verið gefið upp hvenær réttarhöld hefjast í máli Preynat. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert