Skipi með nauðsynjum snúið frá

Miðnætursteinninn kemur til hafnar í Willemstad í Curacao eftir að …
Miðnætursteinninn kemur til hafnar í Willemstad í Curacao eftir að hafa verið snúið frá Venesúela af herskipi. AFP

Skipi með nauðsynjum á borð við lyf og matvæli var í dag snúið frá ströndum Venesúela. Skipið hélt þá til hafnar hollensk-karabísku eyjarinnar Curacao og lagðist þar að bryggju, um 55 kílómetra frá ströndum Venesúela.

Um borð í Miðnætursteininum (e. The Midnight Stone) voru níu gámar með 250 tonn af nauðsynjavörum sem flytja átti frá Púertó Ríkó til Venesúela þar sem mikill skortur er á mat og lyfjum vegna bágs efnahagsástands í landinu.

Um var að ræða eina aðgerð stjórnarandstöðunnar undir forystu Juan Guaido í tilraunum hennar við að koma nauðsynjum til Venesúela, í óþökk Nicolas Maduro, forseta Venesúela. Stjórnarandstaðan reyndi einnig að koma vörum yfir landamæri Venesúela landleiðina í gær og kom til átaka vegna þess á landamærum við Kólumbíu annars vegar og Brasilíu hins vegar.

Ricardo Rossello, ríkisstjóri Púertó Ríkó, sagði venesúelskt herskip hafa hótað því að granda skipinu yrði því ekki snúið við. Segir stjórnarandstaðan að Maduro verði að opna fyrir aðstoð umheimsins fyrir aðstoð þar sem íbúar landsins líði fyrir mikinn skort á nauðsynjavörum.

Maduro segir aftur á móti tilraunir pólitískra andstæðinga við að koma nauðsynjum til landsins vera leikrit og blekkingarleik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert