Dóttir talsmanns Pútíns lærlingur hjá ESB

Dmitry Peskov, talsmaður rússnesku stjórnarinnar (lengst t.v.), varnarmálaráðherrann Sergei Shoigu …
Dmitry Peskov, talsmaður rússnesku stjórnarinnar (lengst t.v.), varnarmálaráðherrann Sergei Shoigu (2. f.v.), utanríkisráðherrann Sergei Lavrov (2. f.h.) og Vladimír Pútín Rússlandsforseti (lengst t.h.). AFP

Ráðning dóttur talsmanns Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta til Evrópuþingsins hefur vakið áhyggjur nokkurra þingmanna ESB. Elizaveta Peskova, sem er dóttir Dmitry Peskov, talsmanns rússnesku stjórnarinnar, er nú lærlingur hjá frönskum þingmanni hægri öfgaflokksins MEP á Evrópuþinginu.

BBC segir Peskovu hafa hafið störf fyrir þingmanninn Aymeric Chauprade í nóvember og verður hún lærlingur hjá honum fram til loka aprílmánaðar. Aðrir þingmenn Evrópuþingsins hafa mótmælt því að hún hafi aðgang að fundum og gagnaskrá þingsins. Talsmaður Evrópuþingsins segir Peskovu þó eingöngu hafa aðgang að þeim skrám sem séu opnar almenningi.

Peskova hefur undanfarin ár numið lögfræði í París. Hún er vel þekkt í félagslífinu og er með 78.000 fylgjendur á Instagram. Hún hefur búið í París í nokkur ár og er ekki feimin við að tjá sig um stjórnmál. Meðal annars hefur hún tjáð sig um franska mótmælendur, svonefnda gulvestunga, og líkti hún nýlega mótmælum þeirra í París kvöld eitt við tölvuleikinn „Zombie Apocalypse“.

Faðir hennar, Dmitry Peskov, hefur lengi starfað fyrir Pútín sem upplýsingafulltrúi. Í síðasta mánuði vítti Peskov Evrópusambandið fyrir að beita refsiaðgerðum gegn tveimur rússneskum leyniþjónustumönnum sem grunaðir eru um tilræði við rússneska gagnnjósnarann Sergei Skripal í Bretlandi á síðasta ári.

Chauprade er fyrrverandi ráðgjafi Marine Le Pen og hefur lýst yfir stuðningi við innlimun Rússa á Krímskaganum. 

Kosningar til Evrópuþingsins fara fram í maí á þessu ári og hafa ýmsir látið í ljós áhyggjur af að rússneskir ráðamenn reyni að hafa áhrif á kosningarnar, líkt og þeir hafa verið sakaðir um að gera í Frakklandi og öðrum löndum.

mbl.is