Gerðu loftárás yfir landamæri Pakistans

Hersýning indverska flughersins i Rajasthan fyrr á þessu ári. Mynd …
Hersýning indverska flughersins i Rajasthan fyrr á þessu ári. Mynd úr safni. AFP

Indverski herinn gerði loftárásir á uppreisnarsveitir í Kasmír, sem voru innan pakistanska hluta fylkisins, en spenna í samskiptum Indlands og Pakistans fer nú vaxandi.

BBC hefur eftir Vijay Gokhale, utanríkisráðherra Indlands, að árásinni hafi verið beint að þjálfunarbúðum uppreisnarmanna Jaish-e-Mohammad (JeM) í Balakot. Pakistönsk yfirvöld segjast hafa brugðist við með því að trufla senda herflugvélanna.

Samskipti ríkjanna tveggja hafa verið mjög stirð frá því að 40 indverskir hermenn létust í sjálfsvígsárás fyrr í mánuðinum.

Indversk stjórnvöld saka pakistönsk yfirvöld um að leyfa uppreisnarhópum að hafast við í landinu og segja það hafa átt þátt í sjálfsvígsárásinni 14. febrúar. Stjórnvöld í Pakistan hafna þessu alfarið.

BBC segir árásina í dag vera þá fyrstu sem gerð hafi verið yfir landamæri ríkjanna allt frá því að landamæri voru dregin milli Indlands og Pakistans í gegnum Kasmír árið 1971.

Gokhale sagði á fundi með fréttamönnum í dag að „mikill fjöldi uppreisnarmanna“ hefði farist í árásinni og fullyrti hann enn fremur að tekist hefði að forðast dráp á almennum borgurum.

„Trúverðugar heimildir gáfu til kynna að JeM væri að skipuleggja fleiri sjálfsvígsárásir á Indlandi. Frammi fyrir þeirri ógn þá var nauðsynlegt að vera fyrri til,“ sagði hann.

Asif Ghafoor, talsmaður pakistanska hersins, segir hins vegar ekkert mannfall hafa orðið í árásinni. Indversku árásarþoturnar hafi þurft að hörfa til baka í snarhastri og hafi því látið sprengjurnar falla á opnu svæði.

mbl.is