Cohen segir Trump bæði ljúga og pretta

Donald Trump er í Hanoi til að funda með Kim …
Donald Trump er í Hanoi til að funda með Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu. Ásakanir Cohens í hans garð eru mjög eldfimar. AFP

Michael Cohen, fyrrverandi lögfræðingur Donald Trumps Bandaríkjaforseta, er sagður ásaka forsetann um að vera „svikari“ og um að stunda pretti í opnunarorðum að vitnisburði sínum sem hann mun flytja fyrir Bandaríkjaþingi í dag. Guardian greinir frá þessu og segist hafa séð ræðu Cohen sem innihaldi ýmsar eldfimar ásakanir í garð forsetans.

Þannig er Trump m.a. sagður hafa vitað að Roger Stone, stjórnmálaráðgjafi hans til margra ára, hafi verið í tengslum við uppljóstrunarsíðuna Wikileaks meðan á kosningabaráttu fyrir forsetakosningarnar 2016 stóð.

Cohen mun bera vitni fyrir stjórnskipunarnefnd þingsins fyrir opnum tjöldum og er hann sagður munu greina nefndinni þar frá því að Stone hafi greint forsetanum frá því að WikiLeaks myndi birta tölvupósta sem stolið var frá landsnefnd Demókrataflokksins og Hillary Clinton mótframbjóðanda Trumps.

Stone sagði Trump frá birtingu tölvupóstanna

„Í júlí 2016, nokkrum dögum fyrir ráðstefnu Demókrataflokksins, var ég á skrifstofu Trump þegar ritari hans tilkynnti að Roger Stone væri í símanum. Trump kveikti á hátalaranum á símanum,“ segir í opnunarorðum Cohens.

„Stone sagði Trump að hann væri að ljúka við að tala við Julian Assange og að Assange hefði sagt sér að innan nokkurra daga myndi birtast fjöldi tölvupósta sem myndu skaða framboð Hillary Clinton. Trump svaraði: „Væri það ekki frábært.“

Guardian segir ásakanir Trumps ganga lengra en áður hefur verið gert í sakbendingu forsetans, mun lengra en nokkuð það sem áður hefur verið upplýst um úr rannsókn Robert Muellers, sérstaks saksóknara bandarísku alríkislögreglunnar FBI. Rannsókn Muellers snýr að meintum afskiptum rússneskra ráðamanna af bandarísku forsetakosningunum  2016 og tengslum þeirra við framboð Trumps.

Segir Cohen ljúga til að stytta dóm sinn

Trump, sem er þessa dagana staddur í Hanoi í Víetnam, vegna leiðtogafundar hans og Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, nýtti sér Twitter til að svara fyrir sig. „Því miður var Michael Cohen einn fjölmargra lögfræðinga sem störfuðu fyrir mig,“ sagði Trump á Twitter.

„Hæstiréttur hefur nýlega svipt hann leyfinu til að stunda lögfræði vegna lyga og svika. Hann gerði slæma hluti sem ekki tengjast Trump. Hann er að ljúga til að stytta fangelsisdóm sinn.“

Cohen er í yfirlýsingu sinni sagður gefa í skyn að fyrirskipun sem hann hafi fengið um að bera ljúgvitni fyrir þinginu um samningatilraun í Trump-turninum við ráðamenn í Moskvu í aðdraganda forsetakosninganna hafi borist sér frá forsetanum, með óbeinum hætti þó.

„Í samræðum sem við áttum meðan á kosningaherferðinni stóð og á sama tíma og ég var virkur í samræðum við Rússa fyrir hann leit hann í augu mín og sagði það eru engin viðskipti við Rússa. Síðan fór hann út og laug þessu sama að bandarískum almenningi,“ er Cohen sagður munu segja fyrir þinginu. Á þennan hátt hafi hann sagt sér að ljúga.

„Trump sagði mér ekki með beinum hætti að ljúga að þinginu. Þannig vinnur hann ekki.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert