Hefja fundarhöld með kvöldverði

Vel virtist fara á með leiðtogunum við upphaf kvöldverðarins.
Vel virtist fara á með leiðtogunum við upphaf kvöldverðarins. AFP

Önnur fundarhöld leiðtoga Bandaríkjanna og Norður-Kóreu eru hafin í Hanoi, höfuðborg Víetnam. Donald Trump og Kim Jong-un tókust í hendur fyrir augum fjölmiðla áður en þeir héldu til kvöldverðar á fimm stjarna hótelinu Metropole.

Búist er við því að leiðtogarnir muni ræða áfanga í kjarnorkuafvopnun Kóreuskagans, en litlar framfarir hafa orðið á því sviði síðan leiðtogarnir funduðu í fyrsta sinn í Singapore í júní í fyrra.

Í umfjöllun BBC er greint frá því að Trump hafi væntingar um árangursrík fundarhöld og hlakki til að hjálpa Kim að tryggja stöðu Norður-Kóreu. Aðspurður hvort formlega yrði lýst yfir endalokum Kóreustríðsins sagðist Trump verða að sjá til.

Kim mun einnig vera bjartsýnn fyrir fundarhöldin og segist ætla að gera sitt besta til að allir verði ánægðir með niðurstöður viðræðnanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert