Vilja afnema neyðarástand

Nancy Pelosi, leiðtogi demókrata á þingi.
Nancy Pelosi, leiðtogi demókrata á þingi. AFP

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti við atkvæðagreiðslu í gær að afnema neyðarástandið við landamæri landsins og Mexíkó en öldungadeildin á eftir að greiða atkvæði um tillöguna.

Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti yfir neyðarástandi á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó í þeim tilgangi að tryggja meira fjármagn til mannvirkjagerðar á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó um miðjan febrúar. „Allir vita að múrar virka,“ sagði Trump þegar hann tilkynnti um ákvörðun sína.

Forsetinn hafði áður samþykkt málamiðlunartillögu sem þingmenn úr báðum flokkum stóðu að, þar sem demókratar féllust á að verja mætti tæplega 1,4 milljörðum Bandaríkjadala í nýjar girðingar á landamærunum í stað þeirra 5,7 milljarða sem Trump og repúblikanar vildu fá. Um leið þýddi málamiðlunin að hluti bandarískra ríkisstofnanna myndi áfram fá fjármögnun og þær þyrftu því ekki að loka, líkt og þær gerðu í desember.

Í öldungadeildinni eru repúblikanar í meirihluta en einhverjir þeirra hafa lýst yfir stuðningi við tillöguna. Í fulltrúadeildinni greiddu 245 atkvæði með tillögunni um að aflétta neyðarástandinu en 182 voru á móti. 13 repúblikanar greiddu atkvæði með tillögunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert