Fyrrverandi þingmaður dæmdur í fangelsi

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti heldur ræðu á dögunum.
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti heldur ræðu á dögunum. AFP

Fyrrverandi þingmaður stjórnarandstöðunnar í Tyrklandi hefur verið dæmdur í fjögurra ára og tveggja mánaða fangelsi fyrir meinta aðkomu sína að valdaránstilrauninni í ríkinu árið 2016.

Eren Erdem heitir þingmaðurinn, sem hlaut þennan dóm í réttarsal í Istanbúl í dag. Hann var dæmdur fyrir að „liðsinna vopnuðum hryðjuverkasamtökum af fúsum og frjálsum vilja án þess þó að vera meðlimur í þeim“ samkvæmt frétt NTV-fréttastofunnar tyrknesku sem AFP vitnar til.

Erdem var handtekinn í júní síðastliðnum fyrir meint tengsl sín við klerkinn Fethullah Gulen, sem Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti og yfirvöld í Ankara segja að staðið hafi á bak við valdaránstilraunina.

Frá árinu 2016 hafa tugþúsundir manna verið handteknir vegna meintra tengsla sinna við Gulen og fylgismenn hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert