Bernie Sanders ætlar að sigra

Bernie Sanders hélt innblásna ræðu í Brooklyn í dag þar …
Bernie Sanders hélt innblásna ræðu í Brooklyn í dag þar sem hann gagnrýndi Trump fyrir lokun ríkisstofnana, meðal annars. AFP

„Ég veit hvað það er að vera í fjölskyldu sem lifir frá launaseðli til launaseðils,“ sagði Bernie Sanders meðal annars í innblásinni ræðu á fundi í Brooklyn. Hann er kominn aftur af stað og hann vill verða forseti.

Í ræðu sinni sagði Sanders reynslu sína af því að hafa alist upp í fátækri fjölskyldu hafa mótað sig. „Ég veit hvaðan ég er,“ sagði hann. Fagnaðarlæti brutust út. „Ólíkt Donald Trump, sem skildi 800.000 opinbera starfsmenn eftir án launa til þess að borga reikningana sína,“ sagði hann. Fagnaðarlæti brutust út.

Verður þetta öðruvísi en síðast?

Sanders tapaði í forkosningum Demókrata fyrir Hillary Clinton árið 2016. Þegar hann tilkynnti um framboð sitt á ný á dögunum var hann spurður hvað væri ólíkt með þessu skipti og því síðasta var svar hans einfalt: „Við ætlum að vinna.“

Það er kosið um forseta Bandaríkjanna haustið 2020. Herferð Sanders um að verða forsetaefni er hafin og aðstæðurnar fyrir hann eru ólíkar því sem var í síðustu kosningabaráttu í tvennum skilningi, að mati fréttaskýrenda BBC: Í aðra röndina er hann í samkeppni við fleiri sterka demókrata en á hinn bóginn mætir hann nú þekktari til leiks, með einarða stuðningsmenn sér að baki.

Það eru fleiri en 10 demókratar í baráttu um að verða forsetaefni. Sanders tilkynnti um sitt framboð fyrir tæpum tveimur vikum.

BBC tekur saman áherslumál Sanders:

  • Að koma á atvinnutryggingu á landsvísu
  • Hækkun lágmarkslauna
  • Víðtækar breytingar á innflytjendalöggjöf, sem fælu í sér landvistarleyfi fyrir fjölda óskráðra innflytjenda
  • Háskólar gjaldfrjálsir
  • Umbætur í sjúkratryggingakerfinu



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert