Sami fulltrúi Noregs

Hljómsveitin KEiiNO, Tom Hugo, Alexandra Rotan og Fred Buljo, stígur …
Hljómsveitin KEiiNO, Tom Hugo, Alexandra Rotan og Fred Buljo, stígur á svið í Tel Aviv fyrir Noreg í maí. Ljósmynd/YouTube

Sami verður fulltrúi Norðmanna í Eurovision-söngvakeppninni í Tel Aviv í Ísrael í maí. Það er þó ekki sá sami og áður, hinn hvítrússneski Alexander Rybak sem enn einu sinni mundar fiðlu sína á sviðinu í nafni Noregs, heldur samíski rapparinn Fred Buljo ásamt hljómsveit sinni KEiiNO sem hreinlega lyfti þakinu af Oslo Spektrum-höllinni í Ósló á úrslitakvöldinu í kvöld með lagi sínu Spirit in the Sky.

Rybak kom þó við sögu í Oslo Spektrum í kvöld þar sem hann flutti sigurlag sitt frá því í fyrra, That‘s How You Write a Song, við gríðarlegan fögnuð viðstaddra en skipti svo yfir í sigurlagið Fairytale frá 2009 við ekki minni undirtektir.

Það voru hins vegar þau Fred Buljo, Alexandra Rotan og Tom Hugo, hljómsveitin KEiiNO, sem áttu tíunda og síðasta lagið sem flutt var í kvöld og var stútfull Oslo Spektrum-höllin vel með á nótunum á meðan þríeykið fór hamförum á sviðinu. Er nær dró lokum voru fjórir stigahæstu flytjendur úr símakosningu og kjöri annarra þátttökulanda tilkynntir og voru það Adrian Jørgensen, Anna-Lisa Kumoji, KEiiNO og D'Sound.

Af þessum fjórum komust Adrian Jørgensen með lagið The Bubble og KEiiNO með lag sitt um andann í skýjunum í bráðabana þar sem Fred Buljo og þríeyki hans báru sigur úr býtum nú fyrir nokkrum mínútum við ærandi fögnuð viðstaddra.

Liðsmenn KEiiNO eru ekki með öllu nýgræðingar í Eurovision en Alexandra Rotan flutti í fyrra lagið You Got Me ásamt Stellu Mwangi og Tom Hugo á tvær keppnir að baki, árin 2013 og 2018, en það var aðeins í keppninni í fyrra sem hann komst á úrslitakvöldið með lagið I Like I Like I Like.

„Joikað“ í annað skipti í Eurovision

Forsprakkinn Fred Buljo er sem fyrr segir samískur að uppruna og kemur frá Kautokeino í Finnmörku, nyrsta fylki Noregs. Þar hefur hann einkum verið þekktur fyrir rapptónlist sína en engu að síður grípur hann til hefðbundins samísks söngvastíls, svokallaðs joiks, í sigurlaginu og „joikar“ hluta af því en lagið má hlýða á með því að smella á myndbandstengilinn neðst í fréttinni.

Langt er um liðið síðan joik hefur heyrst í Eurovision-keppni en hefur það þó gerst þar sem Buljo er ekki fyrsti fulltrúi samíska þjóðflokksins í Noregi sem stígur á svið í keppninni. Þeir Sverre Kjelsberg og hinn samíski Mattis Hætta sigruðu í undankeppninni árið 1980 með lagið Sámiid ædnan (Samísk jörð) þar sem Hætta joikaði af listfengi á sviðinu.

Ekki dugði það þeim félögum þó til sigurs í lokakeppninni, sem það árið var haldin í Haag í Hollandi, heldur vermdu þeir að lokum hið rammíslenska 16. sæti, en Írar fóru með sigur af hólmi í annað skiptið og fór þar Johnny Logan með lagið What‘s Another Year? en hann átti svo eftir að sigra á ný árið 1987.

Spyrjum að leikslokum um hvernig samískt joik og hatur sem sigrar leggst í Evrópubúa í Tel Aviv í Ísrael í maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert