Mikil umferð um sendiráðið fyrir tilræðið

Mennirnir tveir sem bresk yfirvöld gruna um að hafa eitrað …
Mennirnir tveir sem bresk yfirvöld gruna um að hafa eitrað fyrir Skripal-feðginunum. AFP

Miklar mannaferðir til og frá rússneska sendiráðinu í London dagana fyrir tilræðið við rússneska gagnnjósnarann Sergei Skripal eru nú til skoðunar hjá breskum leyniþjónustustofnunum.

Guardian hefur eftir heimildamanni að leyniþjónustustofnanirnar MI5, MI6 og yfirstofnun þeirra GCHQ hafi til rannsóknar óvenjumiklar mannaferðir til og frá sendiráðinu í aðdraganda tilræðisins.

Bresk stjórnvöld hafa sakað rússnesk stjórnvöld um að standa að baki tilræðinu gegn Skripal og Yuliu dóttur hans í Salisbury í Bretlandi  í mars í fyrra og lét Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, vísa 23 meintum rússneskum njósnurum úr landi í kjölfarið.

Rússneskir ráðamenn hafa hins vegar alfarið vísað slíkum ásökunum á bug.

Embætti breska saksóknarans og lögreglan sögðust engu að síður í september í fyrra hafa nægar sannanir til að ákæra rússnesku leyniþjónustumennina Alexander Petrov og Ruslan Boshirov.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert