„Hann er bara lítið barn“

Milljónir barna eiga um sárt að binda í Sýrlandi. Þau …
Milljónir barna eiga um sárt að binda í Sýrlandi. Þau hafast mörg hver við í flóttamannabúðum við bágar aðstæður. Sum eru þar einsömul. AFP

Mikill meirihluti Frakka vill að réttað verði í Írak yfir frönskum ríkisborgurum sem gengu til liðs við vígasamtökin Ríki íslams. Forseti landsins er á sömu skoðun en málin vandast er kemur að börnum sem hafa fæðst frönskum ríkisborgurum í Sýrlandi eða Írak eða voru flutt til þessara landa er foreldrar þeirra gengu til liðs við samtökin. Talið er að yfir 550 frönsk börn hafi búið á yfirráðasvæðum Ríkis íslams frá árinu 2014. Nokkur þeirra eru látin, 84 hafa þegar verið flutt aftur til Frakklands og um 90 bíða þess enn að komast þangað á næstu vikum.

Í hópi barnanna sem enn er ókominn til Frakklands er ungur sonur franskrar stúlku sem strauk að heiman árið 2014, þá fjórtán ára gömul. Hún hafði komist í kynni við Ríki íslams á netinu og félagar úr samtökunum tóku höndum saman við að fá hana til lags við samtökin og koma henni svo til Sýrlands.

Greint er frá sögu þessarar stúlku, Sorayu, í ítarlegri fréttaskýringu á vef CNN. Móðir hennar, Nadia, segir þar sögu hennar. Hún var í stopulu sambandi við dóttur sína eftir að hún kom til Sýrlands. Þar var hún ung gift frönskum karlmanni og saman eignuðust þau son. Nadia telur að dóttir sín og eiginmaður hennar hafi farist í árás í borginni Raqqa árið 2017. En starfsmenn Rauða krossins segja litla drenginn enn á lífi. Og nú berst Nadia fyrir því að honum verði komið til Frakklands.

Ólík nálgun 

Nú þegar baráttan gegn Ríki íslams hefur orðið til þess að draga verulega úr valdi og stöðu samtakanna og hrekja vígamennina á flótta, standa eftir stórar spurningar um hver örlög erlendra ríkisborgara sem gengu til liðs við samtökin eigi að vera.  

Í fréttaskýringu CNN segir þjóðir heimsins taka ólíka afstöðu til þessarar spurningar.

Frakkar hafa orðið harðar fyrir barðinu á Ríki íslams en nokkurt annað Evrópuríki og hryðjuverk í nafni samtakanna hafa kostað 250 manns lífið þar í landi frá árinu 2013.

Börn sem flutt voru frá yfirráðasvæði Ríkis íslams í flóttamannabúðir …
Börn sem flutt voru frá yfirráðasvæði Ríkis íslams í flóttamannabúðir í lok febrúar. AFP

Skoðun Emmanuels Macron Frakklandsforseta er sú að réttarhöld yfir frönskum ríkisborgurum úr röðum Ríkis íslams eigi almennt að fara fram í Sýrlandi eða Írak. Í þeim löndum er dauðarefsing við lýði en ekki í Frakklandi. Macron segist þó ætla að biðla til sýrlenskra og íraskra stjórnvalda að lífum þeirra verði þyrmt.

Þegar eru fyrirhuguð réttarhöld í Írak yfir þrettán frönskum ríkisborgurum sem börðust fyrir Ríki íslams.

Meirihluti Frakka styður þessa leið og 89% þeirra segjast óttast það mjög að franskir öfgamenn snúi aftur til heimalandsins. Aðstandendur fórnarlamba hryðjuverkaárása í Frakklandi eru sumir hverjir ekki sama sinnis og vilja að réttað verði yfir þessum hópi þar í landi í þeirri von að þeir muni upplýsa um skipulagningu hryðjuverkaárása sem kostuðu ástvini þeirra lífið.

Frönsk stjórnvöld vinna nú að því að fá 130 öfgamenn til Frakklands. Í þeim hópi er Frakkinn Adrien Guihal sem grunaður er um að hafa tekið þátt í skipulagningu hryðjuverkaárásarinnar í Nice árið 2016.

Mörg börn munaðarlaus

En örlög barnanna eru flóknara viðfangsefni. Mörg þeirra eru munaðarlaus. Franskir ættingjar þeirra sótt það stíft að stjórnvöld komi börnunum til bjargar.

Nadia er í þessum hópi. Dóttursonur hennar er að verða þriggja ára. Hann dvelur nú í búðum Rauða krossins í norðurhluta Sýrlands. Hún segist lengi vel litla hjálp hafa fengið frá frönskum yfirvöldum við að koma drengnum heim.

„Við búum við það allan sólarhringinn að börnin okkar eru dáin,“ segir hún. „Við búum ekki bara við það á hverjum degi heldur hverja sekúndu. Mér finnst ég hafa orðið fórnarlamb tvisvar. Og að öllum sé sama. Mér finnst ég ein og ég þjáist. Ég get ekki sofið og vakna og spyr af hverju. Stundum vil ég aldrei vakna aftur,“ segir hún í samtali við CNN. Hún segir sárt til þess að hugsa að dóttursonur hennar sé í Sýrlandi. „Hann á ekki að vera þarna. Hann er bara lítið barn. Og hann er allt sem ég á eftir af dóttur minni.“

Hundruð barna af þrjátíu þjóðernum

Samkvæmt mannúðarsamtökunum Save the Children eru yfir 2.500 börn af þrjátíu þjóðernum í búðum í norðausturhluta Sýrlands. Öll eiga þau það sameiginlegt að vera börn fólks sem gekk á einhverjum tímapunkti til liðs við Ríki íslams. Í þessum hópi eru mörg ung börn, sum aðeins nokkurra vikna gömul.

Þrjár breskar unglingsstúlkur, Amira Abase, Kadiza Sultana og Shamima Begum, …
Þrjár breskar unglingsstúlkur, Amira Abase, Kadiza Sultana og Shamima Begum, fóru frá heimalandinu og til Sýrlands árið 2015 til að ganga til liðs við Ríki íslams. AFP

„Líkt og milljónir sýrlenskra barna hafa þessi börn upplifað átök, sprengjuregn og svelti. Þau þurfa sérstaka hjálp til að ná sér eftir reynslu sína og til að geta lifað venjulegu lífi með ástvinum sínum,“ segir í yfirlýsingu Save the Children. Þá aðstoð segja samtökin ekki hægt að veita í búðunum sem eru yfirfullar af fólki á flótta á svæði þar sem átök geta brotist út. „Alþjóðasamfélagið verður að bregðast við áður en það verður of seint.“

Ástvinir frönsku barnanna segja stjórnvöld hafa dregið lappirnar í málinu. Ár hafi liðið án þess að mikil hreyfing hafi komist á málið. Nú á að flytja níutíu þessara barna til Frakklands en þar gæti tekið við löng bið áður en þau komast í hendur ástvina sinna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert