Sjötíu komodó-drekar klöktust í dýragarði

Meira en sjötíu komodó-drekar klöktust úr eggjum í dýragarði á Jövu í Indónesíu í janúar og febrúar. Mæður hópsins eru sjö talsins. 

Náttúruleg heimkynni komodó-dreka eru á nokkrum litlum eyjum í austurhluta Indónesíu. Þeir eru stærstu eðlur heims og ferðamenn hafa mikinn áhuga á að sjá þá í sínu náttúrulega umhverfi. 

Komodó-drekar geta orðið gríðarstórir; um þrír metrar að lengd og um 70 kíló að þyngd. Þeir eru ekki hrifnir af mannfólki og taka til fótanna ef það kemur of nærri.

Árið 2013 voru 3.222 komodó-drekar í náttúrunni en þeim fækkaði töluvert næstu tvö ár á eftir, í 3.014 árið 2015. Þeir eru nú skilgreindir í útrýmingarhættu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert