Banna „óvirðingu“ við stjórnvöld

Vladimír Pútín Rússlandsforseti. Búist er við að hann undirriti frumvarpið …
Vladimír Pútín Rússlandsforseti. Búist er við að hann undirriti frumvarpið sem í framhaldi verði að lögum þegar þau hafa hlotið samþykki efri deildar þingsins. AFP

Neðri deild rússneska þingsins hefur nú samþykkt tvö lagafrumvörp sem banna að yfirvöldum sé sýnd „óvirðing“, sem og dreifing upplýsinga sem stjórnvöld telja vera „falskar fréttir“. BBC greinir frá.

Fyrra bannið á við um það sem kallað er „blygðunarlaus vanvirðing“ við rússneska ríkið, embættismenn þess og rússneskt samfélag og geta þeir sem gerast sekir um ítrekuð brot átt allt að 15 daga fangelsi yfir höfði sér.

Hitt frumvarpið bannar deilingu „falskra upplýsinga um almenn hagsmunamál sem deilt er í gervi falskra frétta,“ samkvæmt því sem rússneska TASS-ríkisfréttastofan greinir frá.

Þung sekt liggur við báðum brotum.

Búist er við að Vladimír Pútín Rússlandsforseti undirriti frumvörpin, sem þar með verði að lögum, um leið og þau hafa hlotið samþykki efri deildar þingsins. Frumvörpin eiga að vera á dagskrá efri deildarinnar 13. mars.  

BBC segir blaðamenn, mannréttindasinna og jafnvel einhverja ráðherra rússnesku stjórnarinnar hafa mótmælt frumvarpinu. Viðskiptablaðið Vedomosti gagnrýndi einnig aðgerðirnar og sagði þær geta ógnað tilvist vef- og bloggmiðla sem vitni í nafnlausa heimildamenn sem eru gagnrýnir í garð stjórnvalda.

Þingmenn stjórnarflokksins, sem lagði frumvörpin fram, hafa hins vegar varið þau. Sagði þingmaðurinn Pavel Krasheninnikov nýju lögin munu „tryggja vernd gegn svokölluðum nethryðjuverkamönnum“ og flokksbróðir hans Anatoly Vyborny lofaði frumvörpin sem „agi almenna borgara“ og hvetji þá til að  taka „aukna ábyrgð“ á gjörðum sínum.

Þeir sem gerast sekir um vanvirðingu í fyrsta skipti geta átt yfir höfði sér sekt sem nemur allt að 100.000 rúblum, eða rúmlega 180.000 kr. Brjóti menn af sér aftur getur sektarupphæðin tvö- eða þrefaldast eða þeir verði þá látnir sæta allt að 15 daga fangelsisvist.

Refsingar við birtingu falskra frétta eru mismunandi. Einstaklingar, embættismenn eða fyrirtæki geta átt yfir höfði sér 300.000, 600.000 eða einnar milljónar rúblna sekt hafi falsfréttin áhrif á starfsemi mikilvægra innviða eins og samgangna eða samskipta.

Hverri þeirri netfrétt sem inniheldur „blygðunarlausa vanvirðingu“ í garð stjórnvalda eða gegn „almennu siðferði“ verður að eyða innan sólarhrings.

Aðrir fjölmiðlar sem eru skráðir hjá dómsmálaráðuneytinu eiga hins vegar yfir höfði sér sekt, en upphafleg frumvarpsdrög gerðu ráð fyrir að þeir gætu misst starfsleyfið. Vefmiðlar sem ekki eru skráðir hjá ráðuneytinu kunna þá að eiga á hættu að lokað verði á þá án nokkurrar viðvörunar.

mbl.is