Trudeau viðurkennir að hafa gert mistök

Justin Trudeau ávarpar blaðamenn í Ottawa í Kanada í dag.
Justin Trudeau ávarpar blaðamenn í Ottawa í Kanada í dag. AFP

Ljóst er að ímynd Justins Trudeau forsætisráðherra Kanada er löskuð vegna ásakana um að hann og þéttofinn hringur samverkamanna hans í pólitík hafi beitt Jody Wilson-Raybould, samflokkskonu Trudeau og fyrrverandi dómsmálaráðherra og ríkissaksóknara landsins, óeðlilegum þrýstingi um að falla frá málsókn á hendur kanadíska stórfyrirtækinu SNC-Lavalin, sem sakað var um mútugreiðslur til lýbískra yfirvalda.

Í dag sór Trudeau af sér sakir og segir sem fyrr að enginn óviðeigandi þrýstingur hafi verið settur á ráðherrann fyrrverandi og ekkert ólöglegt gert, en viðurkennir þó að hann hafi gert mistök og hafi átt að átta sig á því að með því að lýsa yfir áhyggjum sínum af málsókn á hendur SNC-Lavalin myndi traustið á milli skrifstofu hans og Wilson-Raybould hverfa.

„Ég get endurtekið og fullvissað Kanadamenn um að það varð ekkert niðurbrot í kerfum okkar, í réttarríkinu, í heilindum stofnana okkar,“ sagði Trudeau við blaðamenn í Ottawa í dag. Þar sagði hann einnig, að Wilson-Raybould hefði aldrei látið hann vita af því að hún teldi sig verða fyrir óeðlilegum þrýstingi og að hann vildi óska þess að hún hefði gert það, samkvæmt því sem fram kemur í frétt BBC.

Hann sagði að hann hefði aldrei rætt við Wilson-Raybould um „flokkshagsmuni“ tengda málsókninni á hendur SNC-Lavalin, en viðurkenndi að hann og helstu ráðgjafar hans hefðu haft áhyggjur af því hvaða efnahagslegu áhrif sakfelling fyrir dómstólum gæti haft.

Jody Wilson-Raybould kom fyrir þingnefnd síðastliðinn föstudag og vitnaði um …
Jody Wilson-Raybould kom fyrir þingnefnd síðastliðinn föstudag og vitnaði um óeðlilegan þrýsting á hendur sér sem ríkissaksóknara um að láta mál SNC-Lavalin ekki fara fyrir dómstóla. AFP

Wilson-Raybould þótti þessi meinti þrýstingur frá Trudeau og hans ráðgjöfum óviðeigandi, þar sem hún í embætti ríkissaksóknara og dómsmálaráðherra á að njóta ríks sjálfstæðis í störfum sínum, samkvæmt stjórnskipan landsins. Hún nýtur mikils trausts á meðal kanadísks almennings.

Stuðningur dvínar og rannsóknir í gangi

Stuðningur við forsætisráðherrann og Frjálslynda flokk hans mælist nú minni en stuðningur við Íhaldsflokkinn, sem er stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn í Kanada. Og það styttist í kosningar.

Bæði dómsmálanefnd kanadíska þingsins og sjálfstæður umboðsmaður siðferðismála eru nú með málið til skoðunar og í gær spurðu nefndarmenn Garry Butts, sem lét af störfum sem aðstoðarmaður Trumps á dögunum vegna þessa máls, spjörunum úr.

Þar sagði Butts meðal annars, að ef að einhver hefði farið yfir strikið gagnvart dómsmálaráðherranum fyrrverandi, þá hefði það verið hennar að láta einhvern vita af því.

„Það eina sem við báðum ríkissaksóknarann um að gera var að íhuga að skoða málið aftur,“ sagði Butts við þingnefndina og bætti við að málið hafi verið mikilvægt innan ríkisstjórnarinnar, enda 9.000 störf í Kanada að veði.

Gerald Butts á fundi þingnefndar í gærdag.
Gerald Butts á fundi þingnefndar í gærdag. AFP

Stjórnarandstöðuleiðtogar hafa kallað eftir því undanfarnar vikur Trudeau segi af sér embætti vegna SNC-Lavalin skandalsins og í fyrradag sagði Jane Philpott, forseti ríkissjóðsstjórnar Kanada, einnig af sér embætti vegna málsins.

Í framburði sínum fyrir þingnefnd síðastliðinn föstudag sakaði Wilson-Raybould 11 nafngreinda embættismenn sem standa nærri Trudeau um að hafa þrýst á sig, sem ríkissaksóknara, að taka pólitíska hagsmuni eigin flokks og Trudeau inn í myndina í sambandi við afgreiðslu SNC-Lavalin-málsins.

Fyrirtækinu er gefið að sök að hafa greitt tugmilljónir Bandaríkjadala í mútur til þess að tryggja sér gríðarstórt áveituverkefni í Lýbíu á árunum 2001-2011, stærsta áveituverkefni heims raunar, samkvæmt frétt AFP, sem tryggja átti ferskvatnsflæði til borganna Tripoli, Benghazi og Sirte.

Frá blaðamannafundi Trudeau í Ottawa í dag.
Frá blaðamannafundi Trudeau í Ottawa í dag. AFP

Wilson-Raybould segir að þrýstingurinn á hana um að verða við þessari kröfu fyrirtækisins hafi verið slíkur á tímabilinu frá því í september og fram í desember á síðasta ári hann hafi jaðrað við duldar hótanir, en hún var svo sett af sem dómsmálaráðherra og ríkissaksóknari nú í upphafi nýs árs og færð yfir í annað ráðuneyti í hrókeringu innan ríkisstjórnarinnar.

SNC-Lavalin vildi fá að greiða sekt vegna málsins og barðist opinberlega fyrir því, þar sem það myndi komu fyrirtækinu afar illa ef að málið endaði með sakfellingu fyrir dómstólum.

Mögulega myndi það, að sögn SNC-Lavalin, kosta þúsundir starfa innanlands í Kanada, enda gæti sakfelling þýtt að fyrirtækið gæti ekki tekið þátt í útboðum kanadíska ríkisins í heilan áratug.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert