25 létust í bílslysi í Mexíkó

Landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó.
Landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó. AFP

Að minnsta kosti 25 hælisleitendur frá Mið-Ameríku létust þegar flutningabíll sem þeir voru farþegar í á leið að landamærum Bandaríkjanna, fór út af hraðbrautinni í Suður-Mexíkó í gær. 32 farþegar slösuðust.

Slysið varð í Chiapas-ríki við landamæri Gvatemala, að sögn ríkisstjórans. Flutningabíllinn, sem er þrjú tonn að þyngd, valt þegar bílstjórinn missti stjórn á honum. 

Á hverju ári reyna þúsundir fátækra íbúa Mið-Ameríku að komast til Bandaríkjanna og leggja á sig hættulegt ferðalag gegnum Mexíkó til þess. Flestir þeirra koma frá Hondúras, El Salvador og Gvatemala. Margir ferðast saman í bílalestum í öryggisskyni en aðrir kaupa ferð með smyglurum sem troða þeim í yfirhlaðna flutningabíla. 

Að sögn Isidro Hernandez, sem starfar hjá Rauða krossinum, voru um 80 manns í flutningabílnum þegar slysið varð. Talið er að einhverjir þeirra, sem sluppu óslasaðir, hafi flúið af vettvangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert