„Þau héldu að þetta væri grín“

Skjáskot af Twitter

Stjúpsystir Önnu Frank átti fund með bandarískum menntaskólanemum í gær en myndir höfðu birst af þeim heilsa að hætti nasista þar sem þeir stóðu við hakakross sem gerður var úr rauðum bollum.

Eva Schloss sagði eftir fundinn með nemendunum í Newport Beach í Kaliforníu að ungmennin hafi beðist afsökunar á atvikinu og að þau hafi lært sína lexíu á þessu. „Fólk ætti aldrei að gleyma því sem gerðist og hvernig þetta gerðist,“ segir Schloss sem er 89 ára gömul. Hún er ein þeirra sem lifðu af helförina.

„Ég varð fyrir áfalli að árið 2019, í bæ þar sem menntastigið er hátt og í góðum menntaskóla, muni atvik sem þessi eiga sér stað.“ 

Hún segir að hún hafi deilt með þeim reynslu sinni úr Auschwitz-fangabúðunum en ungmennin búa í bæ þar sem flestir íbúarnir eru sterkefnaðir. Hún segir að þau geri sér betur grein fyrir þeirri reiði sem varð til þegar myndirnar birtust á netinu.

„Þau héldu að þetta væri grín,“ segir Schloss sem býr í London en var í Kaliforníu þar sem hún flytur erindi á annarri samkomu.

Eva Schloss.
Eva Schloss. AFP

Skólayfirvöld sem og bæjarins og nemendafélag skólans brugðust reið við þegar myndin fór í dreifingu á netinu um síðustu helgi en myndin er tekin í partýi í heimahúsi. 

Reuven Mintz, rabbíni við Chabad Center for Jewish Life, segist vonast til þess að nemendurnir átti sig á alvarleika málsins en hann kom að undirbúningi fundar Schloss með þeim. „Það er mikilvægt að ungt fólk í dag geri sér grein fyrir afleiðingum þess ef hatursorðræða fær að þrífast,“ segir hann.

Hann segist vonast til þess að það að hitta manneskju sem upplifði þær hörmungar sem fylgdu nasistum og hakakrossinum geti leitt ungt fólk inn á rétta braut í lífinu. 

Gyðingahatur er ört vaxandi vandamál í Bandaríkjunum og er talað um að það hafi aukist um 58% frá 2016 til 2017. 

Líkt og flestir vita lést Anna Frank í fangabúðum nasista. Schloss og fjölskylda hennar voru einnig í felum í Hollandi líkt og fjölskylda dagbókarritarans Önnu Frank. En öll voru þau svikin og send til Auschwitz. Schloss var frelsuð árið 1945 þegar hún var 16 ára gömul en hvorki faðir hennar né bróðir lifðu af dvölina í útrýmingarbúðunum. Móðir hennar gekk í hjónaband með föður Önnu, Otto Frank, árið 1953.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert