Hönnuð til að tæla

Límd við símann.
Límd við símann. AFP

Hönnuðir forrita í símum okkar og tölvum beita ýmsum kænskubrögðum til að halda athygli okkar, fá okkur til að sitja lengur við, skoða meira, horfa meira. Forritin þrýsta efni að okkur, leynt og ljóst, efni sem við vissum ekki einu sinni að við hefðum áhuga á að skoða. Nú finnst sumum tímabært að komast undan ofstjórn tækninnar og hrifsa völdin á vitund okkar úr höndum stórfyrirtækja sem græða á því að halda okkur límdum við skjái.

Allir sem starað hafa á skjá klukkustundum saman hafa upplifað ófrelsi (e. captology), ástand sem atferlisfræðingurinn B.J. Fogg notar yfir þá ósýnilegu,  tæknilegu aðferðir sem beitt er til að hafa áhrif á hegðun notenda. „Það er ekkert sem við getum gert, hvort sem okkur líkar betur eða verr, til að sleppa undan tælingarmætti tækninnar,“ skrifaði Fogg árið 2010.

Öll erum við í snertingu við hina „tælandi tækni“ á hverjum einasta degi, hvort sem það er hinn endalausi „veggur“ á Facebook eða sjálfvirknin á Netflix og YouTube sem matar okkur stöðugt af nýju efni.  Þannig er okkur haldið föngnum og fast við efnið, lengur en við flest viljum viðurkenna.

Ekki slys heldur viljaverk

„Þetta var ekkert forritunarslys, þetta var búið til og kynnt til sögunnar með það að markmiði að fá okkur til að halda sífellt áfram að nota ákveðna miðla,“ segir upplifunarhönnuðurinn Lenaic Faure.

Faure er í samstarfi við franska hreyfingu fólks, Designers Ethiques, sem vill að hönnun forrita sé unnin á samfélagslega ábyrgum forsendum. Faure hefur þróað aðferð til að meta hvort að eiginleikar forrita, sem eiga að grípa athygli notenda, séu siðferðislega réttlætanlegir.

Forritin í símunum okkar minna á sig reglulega, hvetja notendur …
Forritin í símunum okkar minna á sig reglulega, hvetja notendur til að opna þau og skoða efni. mbl.is

Ef farið er eftir sjálfvirkum tillögum YouTube, svo dæmi sé tekið, þá verður til „ósamræmi milli upphaflegs markmiðs notandans, sem er að horfa á ákveðið myndband, og tillagna [um önnur myndbönd] sem birtast til að reyna að fá hann til að horfa áfram,“ segir Faure. Raunverulegur tilgangur með þessari sjálfvirku spilun á YouTube er svo sá að beina ákveðnum auglýsingum að notandanum eftir að hafa aflað upplýsinga um smekk hans og venjur.

Myrku mynstrin

Upplifunarhönnuðurinn Harry Brignull kallar þetta „myrku mynstrin“, nokkurs konar tengibúnað sem er vandlega hannaður til að lokka notendur til að gera hluti sem þeir vilja jafnvel ekki gera. „Þetta eru hönnunarmynstur sem eru nokkuð illa innrætt, stjórnsöm og blekkjandi,“ segir hann. Markmiðið með hönnun þeirra „er að fá þig til að gera það sem þeir sem stjórna þeim vilja að þú gerir“.

Nýjum persónuverndarlögum, sem tekið hafa gildi í löndum ESB sem og hér á landi, er ætlað að gæta þess að vefsíður spyrji notendur um leyfi áður en þær safni upplýsingum um þá. Markmið laganna er gott og gilt, „en þú getur einfaldað fólki það mjög, mjög mikið að smella á „OK“ en hvernig getur notandinn svo bakkað út úr því, hvernig getur hann sagt „nei“? spyr Brignull.

Hann segir að meira að segja fyrir sig, sem sé tölvusérfræðingur, taki það langan tíma að finna út hvernig hægt er að neita vefsíðum um að safna persónuupplýsingunum. Og á stafrænu öldinni sé tími mjög dýrmæt auðlind.

Samkeppni um að heltaka athygli

„Hið stafræna hagkerfi byggir á samkeppninni um að heltaka athygli mannfólks. Þessi samkeppni hefur verið til staðar lengi en nútímatækni sem er beitt til þess í dag er mun árangursríkari en áður,“ skrifaði David S.H. Rosenthal í rannsóknarniðurstöðum er birtar voru í apríl á síðasta ári. Þessi mjög svo áhrifaríku tól séu svo í höndum nokkurra gríðarlega valdamikilla fyrirtækja. „Þessi fyrirtæki eru rekin áfram af þeirri þörf að soga að sér meira og meira af athygli fólks til að hámarka hagnað.“

YouTube reynir með öllum ráðum að fá notandann til horfa …
YouTube reynir með öllum ráðum að fá notandann til horfa á meira, horfa lengur. AFP

Faure segir að til að hægt sé að skilgreina hönnun forrita sem ábyrga þurfi sýn hönnuðarins sem og notandans að snúast um heiðarlega miðlun upplýsinga.

En ef hönnunin ráðskast hins vegar með notandann, beinir honum að einhverju sem hann bað ekki beinlínis um, þá ætti að flokka hana sem óábyrga, að mati Faure.

Tæki en ekki gildra

Franski verkfræðineminn Tim Krief hefur hannað viðbót við vafra sem hann kallar Minimal. Hún býður notandann velkominn í netheim þar sem minni áhersla er lögð á þennan stuld á athygli hans. Forritið byggir á þeirri hugmyndafræði að netið eigi að vera „tæki en ekki gildra“. Markmið viðbótarinnar er að hylja „skaðlegar“ tillögur að efni sem vinsæl forrit beina að notendum. Krief segir að viðbótin ætti að vekja notendur til vitundar um virkni forritanna. „Við erum ekki nógu meðvituð um þetta athyglis-hagkerfi því það virðist ósýnilegt.“

En er þetta nóg til þess að berjast gegn þeim kænskubrögðum sem netrisarnir beita?

Brignull telur að hönnuðir geti haft áhrif til breytinga en að þeir gætu rekið sig á veggi í tölvufyrirtækjunum sem þeir vinna fyrir. „Þeir gætu haft einhver áhrif, en lítil. Ef þeir vinna hjá fyrirtækjum þá búa þau yfir hernaðaráætlunum svo að það getur verið mjög strembið að hafa áhrif á þau.“

Notendur skoða oft vegginn á Facebook lengur en þeir ætla …
Notendur skoða oft vegginn á Facebook lengur en þeir ætla sér. Forritið er hannað til að halda notendum við efnið. AFP

Isabelle Falque-Pierrotin, fyrrverandi forstöðumaður franskrar stofnunar um gagnavernd, hefur einnig trú á að breytt hönnun forrita geti haft jákvæð áhrif. Nýta ætti hana til að verjast því að komið sé fram við notendur netsins eins og leikföng.

Faure segir að sífellt fleiri krefjist þess að hugað sé að siðferði í hönnun forrita og telur sína aðferð geta hjálpað notendum að öðlast meiri skilning og þekkingu á þeirri þjónustu sem þeir nota og fólkinu sem hannar hana.

Að sögn Krief gæti framtak Faure verið leið til að senda stórfyrirtækjunum þau skilaboð að notendur vilji ekki láta plata sig.

Netflix aflar upplýsinga um efnið sem þú horfir á og …
Netflix aflar upplýsinga um efnið sem þú horfir á og leggur svo til við þig efni sem þú gætir haft áhuga á. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert