Lögregla stóð í vegi mótmælenda

Stuðningsmaður stjórnarandstöðuleiðtogans Juan Guaido ræðir af ákefð við liðsmann úr …
Stuðningsmaður stjórnarandstöðuleiðtogans Juan Guaido ræðir af ákefð við liðsmann úr óeirðarlögreglunni. AFP

Óeirðalögregla í Venesúela lokaði götum og stóð í vegi þúsunda mótmælenda fyrr í dag. Bæði forseti landsins, Nicolas Maduro, og leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Juan Guaido, höfðu beðið stuðningsmenn sína að fylkja liði á götum höfuðborgarinnar Caracas og víðar. 

„Við viljum marséra! Jú við megum það!“ var á meðal þess sem stuðningsmenn stjórnarandstöðunnar hrópuðu þegar lögregla kom í veg fyrir að þeir gætu gengið um götur í austurhluta Caracas. Þá hafði öryggisfólk í nótt stöðvað stjórnarandstöðuna í því að setja upp svið þar sem mótmæli þeirra áttu að fara fram.

„Þau halda að þau geti hrætt okkur en þau munu fá óvæntan glaðning (e.surprise) frá fólkinu á götunum,“ var á meðal þess sem stjórnarandstöðuleiðtoginn Juan Guaido tísti.

AFP greinir frá.

Lögregla og aðrir öryggisstarfsmenn komu í veg fyrir að stuðningsmenn …
Lögregla og aðrir öryggisstarfsmenn komu í veg fyrir að stuðningsmenn stjórnarandstöðu gætu mótmælt fyrr í dag. AFP

Vinir Venesúela mótmæltu við stjórnarráðið

Fleiri en íbúar landsins létu sig málefni Venesúelsku þjóðarinnar varða en Vinir Venesúela og Samtök hernaðarandstæðinga stóðu að útifundi í dag til að mótmæla heimsvaldastefnunni og íhlutun Bandaríkjanna í Venesúela, að því er fram kemur í tilkynningu frá félaginu.

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, flytur ræðu við stjórnarráðið …
Ögmundur Jónasson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, flytur ræðu við stjórnarráðið í dag. Ljósmynd/Aðsend

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, tók til máls á fundinum þar sem hann sagði m.a. að utanríkisráðherra Íslands fyndist Ísland hafa hlutverki að gegna, þó ekki með því að leggjast á réttlætis- og friðarsveif heldur til stuðnings ofbeldisöflunum.

Hann lauk svo ræðu sinni með orðunum:
„Við söfnumst hér saman til að mótmæla heimsvaldastefnu; ofbeldi og yfirgangi heimsauðvaldsins.
Við söfnumst hér saman til að mótmæla yfirgangi og ofbeldi Bandaríkjastjórnar og fylgifiska þeirra í NATÓ.

Og síðast en ekki síst þá er það engin tilviljun að við söfnumst saman fyrir framan Stjórnarráð Íslands.
Það gerum við til að mótmæla hlutdeild íslenskra stjórnvalda í valdaráni í Venesúela.
En eitt er víst að það rán fer ekki fram í okkar nafni.
Ekki í okkar nafni!“

Frá fundinum við stjórnarráðið í dag.
Frá fundinum við stjórnarráðið í dag. Ljósmynd/Aðsend

Uppfært klukkan 20:20

Fólk frá Venesúela mótmælti mótmælunum

Fleiri en fólk undir formerkjum Vina Venesúela mótmæltu í miðborginni í dag en hinum megin við Lækjargötuna, við Lækjartorg, stóð fólk frá Venesúela sem mótmælti mótmælum Vinum Venesúela. Segja þau að samtökin Vinir Venesúela hafi ekkert með Venesúela að gera og ættu alls ekki að kalla sig vini Venesúela.

Fólk frá Venesúela mótmælir mótmælum Vina Venesúela, sem áttu sér …
Fólk frá Venesúela mótmælir mótmælum Vina Venesúela, sem áttu sér stað við Stjórnarráðið í dag. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert