Gagnrýndi „fagnaðarerindi“ um miðstéttir

Ferðamenn, innlendir og erlendir, fagna nýju ári á ströndinni í ...
Ferðamenn, innlendir og erlendir, fagna nýju ári á ströndinni í Durban í Suður-Afríku á nýársdag. AFP

Á undanförnum árum hefur mikið verið rætt og ritað um rísandi millistéttir í ríkjum á suðurhveli jarðar. Alþjóðastofnanir á borð við Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNDP) og Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD) hafa í skýrslum sínum boðað að teikn séu á lofti um samfélagslega framþróun, þar sem æ fleiri einstaklingar í þróunarríkjum tilheyri millistétt.

„Á milli 1990 og 2010 óx hlutur hins hnattræna suðurs í heildarfjölda þeirra sem eru í miðstéttum í heiminum öllum úr 26% upp í 58%. Árið 2030 er búist við því að yfir 80% miðstéttafólks heimsins verði í ríkjum á suðurhveli jarðar og að 70% af einkaneyslu miðstétta fari fram á suðurhvelinu,“ segir til dæmis í árlegri þróunarskýrslu UNDP frá árinu 2013.

Sé horft til þessa virðist mikið tilefni til bjartsýni, enda hefur sagan víða verið sú að félagsleg framþróun hefur fylgt stækkandi millistéttum, þar sem tilurð þeirra setur aukinn þrýsting á stjórnvöld um að myndaður sé samfélagssáttmáli sem tryggir almennum borgurum aukin lífsgæði af hálfu ríkisins sem endurgjald fyrir skattgreiðslur sínar.

Í þessari umræðu hefur einnig verið talað um stækkandi millistéttir í Afríku og samkvæmt Afríska þróunarbankanum (AfDB) eru það nú um það bil 350 milljónir manna í Afríkuríkjum sem tilheyra miðstéttum, af alls um 1,3 milljörðum íbúa álfunnar. Sjá má stéttaskilgreiningar AfDP á myndrænan hátt hér að neðan.

Svona er stéttaskiptingin í Afríku, samkvæmt Afríska þróunarbankanum.
Svona er stéttaskiptingin í Afríku, samkvæmt Afríska þróunarbankanum. Skýringarmynd/Afríski þróunarbankinn

Letilegar rannsóknaraðferðir

Þetta er hæpið, svo ekki sé meira sagt, að mati þýsk-namibíska fræðimannsins Henning Melber, sem hélt opinn fund í Norræna húsinu á fimmtudag undir yfirskriftinni „Hvar er millistéttin í Afríku og hverjir tilheyra henni?“

Melber þessi er nokkuð kunnur fræðimaður og sérfræðingur í málefnum Afríku. Hann kom til Namibíu á táningsaldri á sjöunda áratug síðustu aldar og tók þátt í stjórnmálastarfi í ríkinu með SWABO, sem barðist fyrir sjálfstæði landsins frá Suður-Afríku.

Melber sagði aðferðir hagfræðinga og fleiri fræðimanna alþjóðastofnana við að ákvarða hverjir hafi stöðu miðstéttarfólks í tilteknu ríki og hvaða áhrif téðar miðstéttir komi til með að hafa, í meira lagi letilegar. Hann sagði að eingöngu væri stuðst við fjárhagslegar breytur á borð við tekjur fólks og í sumum tilfellum væri það svo að fólk sem lifði á andvirði tveggja til sex Bandaríkjadala á dag væri flokkað sem miðstéttarfólk.

„Allir sem eru ekki að svelta þessa dagana virðast komast í hóp miðstéttarfólks,“ sagði Melber, sem er prófessor við Pretoria-háskóla í Suður-Afríku og gestafræðimaður við Norrænu Afríkustofnunina við Uppsalaháskóla í Svíþjóð.

Miðstéttir verði varla drifkraftur samfélagsbreytinga

Hann segir að umræðan um afrísku millistéttirnar sé oft yfirborðskennd og að af henni séu dregnar ályktanir sem eigi ekki endilega við rök að styðjast, eins og sú að stækkandi millistétt verði til þess að í fleiri ríkjum komist á lýðræði.

Hann kallar kenningar sem þessar „hugmyndafræðilega reykjarhulu nýfrjálshyggjunnar“, sem viðhaldið sé af fræðimönnum alþjóðastofnana til þess að réttlæta ráðandi nálganir í þróunaraðstoð og fjárfestingum í álfunni og vísaði til þess að fræðimenn hefðu einmitt komist að því gagnstæða, með rannsóknum á viðhorfum íbúa í ýmsum Afríkuríkjum sem teknar eru saman af Afrobarometer.

Á meðal þess sem þar hefur komið fram er að miðstéttarfólk í mörgum Afríkuríkjum sýnir tilhneigingu til þess að telja samborgara sína ófæra um að ráðstafa atkvæðum sínum í kosningum á ábyrgan hátt. Eftir því sem menntun einstaklinga eykst, eykst einnig tilhneiging fólks til þess að lýsa sig sammála því að „einungis þeir sem eru nægilega vel menntaðir ættu að fá að kjósa leiðtoga okkar“ og til þess að lýsa sig ósammála því að „allir ættu að fá að kjósa, þrátt fyrir að þeir skilji ekki fyllilega öll málefnin sem kosið er um“.

Henning Melber hélt fyrirlestur um miðstéttir Afríku í Norræna húsinu ...
Henning Melber hélt fyrirlestur um miðstéttir Afríku í Norræna húsinu á fimmtudag. mbl.is/Arnar Þór

Og það er ekki bara vantraust í garð þeirra ómenntuðu, sem millistéttin sýnir af sér, heldur líka traust til ráðandi stétta, stjórnmálastéttarinnar og elítunnar, sem oft og tíðum er raunar sama fólkið, samkvæmt Melber. Og það þarf að treysta stjórnvöldum til þess að fella sig við að greiða aukna skatta.

„Ég hef aldrei hitt afrískt miðstéttarfólk sem væri til í að borga meiri skatta. Hver trúir því að þeir sem halda í stjórnartaumana myndu nota skatttekjurnar til þess að koma þeim fátækustu til góða? Láttu þig dreyma,“ segir Melber.

Hann sagði jafnframt við áheyrendur í Norræna húsinu að til þess að róttækar samfélagsbreytingar myndu eiga sér stað í ríkjum Afríku sunnan Sahara þyrftu þeir sem halda um stjórnartaumana í álfunni, þeir ríkustu og áhrifamestu, að láta til sín taka. Auk þess þyrfti arðráni alþjóðlegra stórfyrirtækja í fátækustu ríkjum Afríku að linna.

mbl.is
Skákborð vandað palesander
til sölu vandað skákborð. kr.45 þúsund.uppl.8691204...
Sumarhús- Gestahús- Breytingar
Sumarhús - Gestahús - Breytingar ? Framleiðum stórglæsileg sumarhús í ýmsum stær...
Kolaportið alltaf gott veður!
Góða veðrið og góða skapið er í KOLAPORTINU!...
* Öll stærstu á einum stað
Þú getur spilað með í yfir 50 stærstu Lottóum heimsins. Í yfir 12 ár hafa lottó...