Maduro: herinn hindraði valdaránstilraun

Nicolas Maduro forseti Venesúela ávarpar stuðningsmenn sína við forsetahöllina í ...
Nicolas Maduro forseti Venesúela ávarpar stuðningsmenn sína við forsetahöllina í Caracas. AFP

Nicolás Maduro, forseti Venesúela, lofaði hersveitir landsins fyrir hollustu sína við hann og þakkaði þeim fyrir að brjóta á bak aftur „valdaránstilraun“ þingforsetans og stjórnarandstöðuleiðtogans Juan Guaidó. 

BBC segir Maduro hafa látið þessi orð falla á fundi með stuðningsmönnum sínum í gær, en tugþúsundir Venesúelabúa tóku þátt í mótmælafundum í landinu í gær. Höfðu bæði Maduro og Guaidó beðið stuðnings­menn sína að fylkja liði á göt­um höfuðborg­ar­inn­ar Caracas og víðar. 

Maduro kenndi einnig „netárásum“ stjórnarandstöðunnar um rafmagnsleysið sem víða hefur verið í landinu undanfarna daga.

Stuðningsmenn Juan Guaidó taka hér þátt í mótmælagöngu í Caracas ...
Stuðningsmenn Juan Guaidó taka hér þátt í mótmælagöngu í Caracas í gær. AFP

„Við vilj­um marséra! Jú við meg­um það!“ var á meðal þess sem stuðnings­menn stjórn­ar­and­stöðunn­ar hrópuðu þegar lög­regla kom í veg fyr­ir að þeir gætu gengið um göt­ur í aust­ur­hluta Caracas í gærdag. Til átaka kom á nokkrum stöðum milli stuðningsmanna Guaidó og lögreglu. Hrópuðu sumir mótmælendur „morðingjar“ á lögreglu sem brást við með því að beita piparúða.

Maduro sagði Guaidó, sem lýsti sig forseta landsins til bráðabirgða í janúar, vera „trúð og strengjabrúðu“ bandarískra stjórnvalda. „Þeir buðu hernum að standa fyrir valdaránstilraun og svar þeirra var skýrt — þeir hafa sigrast á skipuleggjendum valdaránsins,“ sagði Maduro.

„Við ætlum að fá alla Venesúelabúa til Caracas, af því ...
„Við ætlum að fá alla Venesúelabúa til Caracas, af því að við þurfum á þeim öllum sameinuðum að halda,“ sagði Juan Guaidó við sína stuðningsmenn. AFP

Guaidó tilkynnti stuðningsmönnum sínum hins vegar á mótmælafundi að hann myndi fljótt halda í ferð um landið þar sem hann myndi kalla á alla sína stuðningsmenn að taka þátt í fjöldamótmælum í Caracas „mjög fljótlega“.

„Við ætlum að fá alla Venesúelabúa til Caracas, af því að við þurfum á þeim öllum sameinuðum að halda,“ sagði Guaidó, sem yfir 50 ríki hafa viðurkennt sem forseta Venesúela til bráðabirgða.

mbl.is