Norðmaðurinn í Nairobi-fluginu

Karoline Aadland, starfsmaður Rauða krossins í Noregi, var farþegi með …
Karoline Aadland, starfsmaður Rauða krossins í Noregi, var farþegi með vél Ethiopean-flugfélagsins sem fórst á leið til Nairobi í morgun. Talsmaður Rauða krossins sendir fjölskyldu hennar innilegar kveðjur og upplýsingafulltrúi Viðskiptaháskólans í Bergen rifjar upp námsdvöl hennar þar. Ljósmynd/Úr einkasafni

Karoline Aadland, starfsmaður Rauða krossins í Noregi, var um borð í farþegaflugvél Ethiopean-flugfélagsins sem fórst í morgun á leið sinni frá Addis Ababa í Eþíópíu til Nairobi í Kenýa. Bernt G. Apeland, aðalritari samtakanna í Noregi, staðfesti þetta við norska fjölmiðla nú fyrir skömmu og lýsti yfir djúpri sorg fyrir hönd Rauða krossins.

Hann tekur þó fram að Rauða krossinum hafi ekki borist nein staðfesting frá flugfélaginu eða yfirvöldum í Eþíópíu eða Kenýa um eitt eða neitt svo samtökin líti enn sem komið er svo á að hennar sé saknað. Ástvinum Aadland eru þó sendar dýpstu samúðarkveðjur á ögurstundu. Breska ríkisútvarpið BBC greindi frá því fyrir fjórum tímum að Ethiopean-flugfélagið hefði aftekið að nokkur farþega eða áhafnar hefði lifað slysið af.

Aadland var 28 ára gömul og starfaði við fjárhald í alþjóðadeild Rauða krossins. Hún var í atvinnuerindum í ferðinni og hafði áður starfað töluvert að mannúðarmálum og verið á vettvangi meðal annars í Kenýa, Suður-Afríku og Malaví.

Aadland starfaði áður hjá UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, og útskrifaðist í fyrra frá Viðskiptaháskólanum í Bergen. Upplýsingafulltrúi þar, Kristin Risvand Mo, lýsir Aadland sem glæsilegri manneskju og úrvalsnemanda og rifjar upp erindi sem hún hélt við skólann í fyrra þar sem hún kynnti starfsemi UNICEF fyrir áheyrendum. „Okkur tekur það mjög sárt að heyra að hennar sé saknað,“ segir Mo.

NRK

VG

Dagbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert