Leiðtogarnir með auga á hverjum kjósanda

Íbúar N-Kóreu gengu að kjörkössunum í dag og kusu sér fulltrúa á æðsta þing landsins. Kosningarnar eru þó að mestu bara til sýnis enda einungis einn mögulegur sigurvegari, Verkamannaflokkurinn með leiðtogann Kim Jong-un í broddi fylkingar. Kosningakerfið byggist á einmenningskjördæmum og því er einungis eitt fyrirframsamþykkt nafn á hverjum kjörseðli. Til málamynda er svo blýantur í hverjum kjörklefa sem kjósendur geta notað til að strika út nafn af kjörseðlinum en það gerir enginn.

Hinir látnu leiðtogar og fyrirrennarar Kim Jong-un, faðir hans Kim Jong-il og afinn Kim Il-sung, fylgjast með hverjum kjósanda sem setur kjörseðil í kjörkassann, en myndir af þeim hanga ofan við hvern kjörkassa í landinu, að því er fram kemur á vef AFP.

Kjósendur bíða eftir því að komast að kjörkössunum í morgun.
Kjósendur bíða eftir því að komast að kjörkössunum í morgun. AFP

Mega búast við 100% kosningu

Þingkosningar fara fram á fimm ára fresti og er íbúum skylt að kjósa. Kjörsókn var 99,97% þegar síðustu kosningar fóru fram árið 2014 og kusu 100% með frambjóðendum sem voru á kjörseðlinum. „Í samfélaginu okkar sameinast fólkið um hinn virta æðsta leiðtoga eins og einn hugur,“ sagði kosningafulltrúinn Ko Kyong Hak fyrir utan kjörstað í höfuðborginni Pyongyang í dag.

Fulltrúar Verkamannaflokksins munu þó ekki setjast í öll 687 þingsætin því sumum sætanna er úthlutað til tveggja smáflokka sem þó eru formlega tengdir Verkamannaflokknum. Tilvist smáflokkanna tveggja er að miklu leyti einungis formsatriði og starfrækja þeir litlar flokksskrifstofur fyrir áróðursáhrif, segja greinendur AFP.

Leiðtoginn Kim Jong-il greiðir atkvæði í Tækniháskólanum í Pyongyang í …
Leiðtoginn Kim Jong-il greiðir atkvæði í Tækniháskólanum í Pyongyang í morgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert